Borgarlínan lögð yfir leikskólalóð

Gert hefur verið samkomulag um að borgin útvegi annað húsnæði …
Gert hefur verið samkomulag um að borgin útvegi annað húsnæði ef svo ber undir. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Borgarlínan verður lögð „nærri eða yfir“ lóð leikskólans Steinahlíðar, sem er í eigu barnavinafélagsins Sumargjafar, og þaðan yfir Sæbrautarstokk.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður Sumargjafar undirrituðu í dag samkomulag, sem gerir ráð fyrir að lóðarmörkum Steinahlíðar verði breytt um allt að 5.000 fermetra, en þar rekur borgin samnefndan leikskóla.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður stjórnar …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður stjórnar barnavinafélagsins Sumargjöf. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Gætu þurft að útvega annað land 

„Ef borgarlínan fer lítillega yfir lóð Steinahlíðar mun Reykjavíkurborg tryggja Sumargjöf sambærilegt aðliggjandi land að stærð og gæðum þannig að félagið sé eins sett eftir skiptin,“ segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Fyrsti áfangi borgarlínunnar mun fara í gegnum landið, sem er erfðafestuland í eigu Sumargjafar.

Vilja gera Steinahlíð og lóðina í kring að unaðsreit

„Ekki er búið að útfæra nákvæmlega hvar Borgarlínan mun liggja í landinu en hönnun, greiningarvinna og útfærslur á einstaka hlutum, til dæmis gatnamótum, götusniðum og gangbrautum stendur yfir,“ segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Land Steinahlíðar við enda Suðurlandsbrautar sé með miklum trjágróðri og túnum og áformi Sumargjöf að skipuleggja landið þannig að það nýtist betur til barnvænnar starfsemi og útivistar. Þá hafi bæði Sumargjöf og Reykjavíkurborg áhuga á því að fjölga leikskólaplássum á svæðinu.

„Stefnt er að því að gera Steinahlíð og lóðina umhverfis að grænum unaðsreit með aukinni áherslu á ýmis konar ræktun; trjárækt, garðrækt og matjurtarækt. Þá verði Steinahlíð opin almenningi sem gróðurvin og útivistarsvæði að því marki sem leikskólastarfið leyfir,“ segir í lokin. Sérstakt samkomulag verður gert um kostnaðarþátttöku borgarinnar í tengslum við þróun lóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert