Lögreglustjóri ekki upplýstur um áhyggjur skotfélags

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, hafði ekki vitneskju um …
Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, hafði ekki vitneskju um samtal lögreglumanns við meintan árásarmann. mbl.is/Hákon Pálsson

Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra segir enga formlega tilkynningu hafa borist inn á borð til lögreglu frá skotfélaginu Markviss varðandi áhyggjur af andlegri heilsu meints árásarmanns á Blönduósi. Um óformlegt samtal hafi verið að ræða á milli formanns félagsins og lögreglumanns í bænum seint á síðasta ári. Sjálfur hafði lögreglustjórinn enga vitneskju um þau samskipti.

Stjórn skotfélagsins greindi frá því í yfirlýsingu á heimasíðu sinni í gær að félagið hefði látið yfirvöld vita af áhyggjum sínum af andlegri heilsu mannsins. Hann keppti fyrir hönd félagsins á árum áður og gegndi trúnaðarstörfum í þágu þess. Undanfarin ár hafi hins vegar farið að halla undan fæti hjá manninum og hann síðan sagt sig úr félaginu á síðasta ári.

Lögreglumaður ræddi við manninn

„Það er þannig í litlu samfélagi, þar sem allir þekkja alla, að þessi formaður skotfélagsins kom að máli við lögreglumann hér á Blönduósi og lýsti samskiptum milli félagsins og árásarmannsins,“ segir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.

Í framhaldinu ræddi viðkomandi lögreglumaður við hinn meinta árásarmann og það þótti ekki tilefni til þess að aðhafast nokkuð á þeim tíma. Málið var heldur ekki skráð sérstaklega.

„Þetta er heimamaður og það eru tengsl á milli. Hér þekkist fólk. Þessi lögreglumaður sem um ræðir var búinn að þekkja þennan mann mjög lengi og mat það þannig að það væri ekki ástæða til að aðhafast nokkuð,“ segir Birgir.

„Það var svo fyrr í sumar sem það var komið annað hljóð í strokkinn þannig að það var talin ástæða til að taka af honum skotvopnin.“

Hafði fyrst afskipti af manninum í sumar

Birgir ítrekar að málið hafi aldrei komið inn á borð til hans og að hann hafi ekki þekkt til mannsins.

„Ég hafði ekki hugmynd um hver þessi maður var fyrr en ég tók ákvörðun um það að afturkalla hjá honum skotvopnaleyfið. Það voru mín mín fyrstu afskipti af þessum manni, þegar ég tók ákvörðun um það, í samráði við mína samstarfsmenn að afturkalla hjá honum skotvopnaleyfið.“

Var það gert í kjölfar atviks sem átti sér stað fyrir fjórum vikum sem var metið þannig að taka þyrfti af honum vopnin. Samkvæmt heimildum mbl.is kom árásarmaðurinn þá heim til hjónanna sem hann réðst á í gær, og hafði í hótunum með skotvopni. Lagði lögregla þá hald á öll vopn sem skráð voru á manninn.

Átti að afturkalla leyfi og fá læknisvottorð 

Til stóð að birta manninum ákvörðun lögreglunnar um afturköllun skotvopnaleyfis í þessari viku.

„Ástæðan fyrir því við ætluðum að gera þetta svona var að við ætluðum svo að óska eftir læknisvottorði frá honum. Að fá lækni til að leggja mat á það hvort hann gæti verið með skotvopnaleyfi yfir höfuð,“ útskýrir Birgir.

„Þetta er lögum samkvæmt. Við getum ekki bara svipt fólk skotvopnaleyfi sisvona. Við verðum að afturkalla það. Þetta fer í ákveðið lögbundið ferli. Þetta er ekki seinagangur eða neitt þess háttar. Stjórnsýslan er lögbundin og við teljum okkur haf verið að fylgja lögbundinni stjórnsýslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert