Eldur kviknaði í þaki viðbyggingar St. Jósefsspítala um klukkan hálf ellefu í kvöld. Voru þrír dælubílar sendir á staðinn auk tveggja sjúkrabíla.
Þetta staðfestir Hafsteinn Halldórsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Hann segir að slökkviliðinu hafi tekist fremur fljótlega að ná tökum á eldinum og hafi verið að störfum í um klukkustund. Enginn hlaut skaða af.
„Það er búið að slökkva allan eld og slökkvistarfi er lokið.“
Ekkert er vitað um upptök eldsins, enn sem komið er.