Nauðungarvistanir vegna óorðinna hluta óæskilegar

Lögreglan girti af húsið og lóðina á Blönduósi þar sem …
Lögreglan girti af húsið og lóðina á Blönduósi þar sem voðaverkin í gærmorgun voru framin. mbl.is/Hákon

Líkt og oft eftir voðaverk varð umræða um löggæslu og hvernig tryggja mætti öryggi borgaranna betur áberandi á félagsmiðlum. Þar var m.a. spurt hvernig á því stæði að maður sem hefði verið staðinn að því að hóta fólki með skotvopni og verið lagður inn á geðdeild hefði gengið þaðan út, orðið sér úti um annað skotvopn og látið til skarar skríða.

Það á vafalaust eftir að koma betur í ljós á næstu dögum, en það er ekki svo að stjórnvöld hafi engin tæki til þess að hneppa í gæslu fólk, sem óttast er að geti valdið sjálfu sér eða öðrum tjóni.

Þar þarf hins vegar að stíga varlega til jarðar, það má ekki vera of auðvelt að svipta fólk frelsi sínu vegna einhvers sem það hefur ekki gert. Hafi það í hótunum og veifi vopnum er hins vegar komin góð ástæða til þess að grípa inn í. „Ef við ætlum að játa læknum eða lögregluþjónum vald til þess að loka fólk inni bak við rimla vegna þess að þeim líst ekki á það, þá er ekki víst að okkur þyki þær ákvarðanir jafnásættanlegar,“ sagði lögmaður með mikla reynslu á þessu sviði í samtali við Morgunblaðið.

Þar þyrftu bæði að vera mörk og mótvægi, en í lögræðislögum væru ýmsar heimildir til þess að „taka úr umferð“ fólk, en ávallt háð ákvörðun dómara. Þar dygði ekki til að fólk væri skrýtið eða kenjótt, það þyrfti beinlínis að vera viti sínu fjær til þess að það væri vistað gegn vilja sínum, sjálfu sér og öðrum til verndar.

Hér ræðir þó ekki aðeins um lögfræðilegt álitaefni, því innan heilbrigðiskerfisins eru einnig skiptar skoðanir um nauðungarvistanir. Þar getur aðsteðjandi hætta verið mismikil eftir sjúkdómum, en svo geta einnig verið praktískari vandamál eins og rými á geðdeildum. Þar geta læknar verið ófúsir til þess að taka við nauðungarvistuðu fólki, sem engan áhuga hefur á því að þiggja læknishjálp, er ósamstarfsfúst, neitar lyfjagjöf og þar fram eftir götum, meðan það getur verið biðlisti af fólki, sem vill komast á geðdeild og leita sér hjálpar. Læknarnir segi með nokkrum rétti að á sjúkrahúsum eigi lækningar að ganga fyrir vistun, sem snúi fremur að öryggi en heilbrigðisþjónustu.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert