Stefnt er að formlegri opnun útsýnispallsins á Bolafjalli 1. september næstkomandi. Pallurinn var byggður utan í fjallinu í fyrra og hefur fólk getað nýtt sér hann í sumar eftir að vegurinn upp á fjallið var opnaður.
Frá því seint á níunda áratugnum hefur verið hægt að keyra upp á fjallið á sumrin og njóta útsýnisins. Í sumar hefur fólk getað farið upp á Bolafjall eins og áður en pallurinn hefur ekki formlega verið tekinn í notkun enda ekki öllum frágangi lokið á svæðinu.
„1. september er stóri dagurinn. Það vill svo vel til að þann dag ætlar ríkisstjórn Íslands að halda ríkisstjórnarfund fyrir vestan,“ sagði Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. „Þá verður allt tilbúið og Skipulagsstofnun og Húsnæðismannvirkjastofnun verða búin að taka framkvæmdina út.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.