Við hugsum til þeirra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir hug landsmanna allra vera hjá þeim sem eiga um sárt að binda í Húnabyggð, þau voðaverk hafi snortið alla landsmenn.

„Þjóðin öll er slegin yfir þessum þessum hræðilegu atburðum, þessu voðaverki sem var framið um helgina,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið. „Ég held satt að segja að við höfum öll tárast við að hlusta á [Guðmund Hauk Jakobsson] forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar í gærkvöldi, þegar hann flutti yfirlýsingu fyrir hönd sveitarstjórnarinnar og íbúa og kallaði eftir stuðningi þjóðarinnar.“

Katrín er ekki í nokkrum vafa um hvernig honum er háttað. „Við finnum það hvað þessi atburður hefur skekið samfélagið djúpt og það á ekki aðeins við um Húnabyggð, það á við um okkur öll,“ segir hún og vill svara bóninni með beinum hætti.

„Ég held ég geti alveg leyft mér að segja það fyrir hönd þjóðarinnar að okkar hugur, allra landsmanna, er hjá þeim sem eiga um sárt að binda eftir þetta voðaverk og ekki síður öllum íbúum svæðisins. Við hugsum til þeirra og sendum þeim okkar bestu strauma.“

Forsætisráðherra telur málið kalla á frekari umræðu.

„Eðlilega vakna spurningar, sem við þurfum að ræða á hinu pólitíska sviði í framhaldinu eins og þið hafið fjallað um varðandi vistunarúrræði og annað slíkt, segir forsætisráðherra, sem gerir ráð fyrir að yfir þau mál verði farið á ríkisstjórnarfundi á morgun. „En fyrst og fremst er þetta hryllilegur harmleikur, sem ristir djúpt,“ segir Katrín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert