Kaupmáttur hefur ekki verið lægri síðan í desember 2020 og talið er víst að kaupmáttur haldi áfram að minnka á næstu mánuðum.
Í júní síðastliðnum minnkaði kaupmáttur í fyrsta skipti frá sama mánuði fyrra árs frá því í maí 2010. Þá var 12 ára samfelldri kaupmáttaraukningu lokið og nú hafa liðið tveir mánuðir þar sem kaupmáttur minnkar miðað við sama tímabil á fyrra ári.
Verðbólga er enn mikil og ekki er um um frekari samningsbundnar launahækkanir að ræða á þessu samningstímabili sem lýkur í október á almenna markaðnum. Þetta kemur fram bæði í Hagsjá Landsbankans og Korni greiningar Íslandsbanka.
Launavísitalan lækkaði um 0,1 prósent á milli mánaða, en síðast lækkaði vísitalan á milli mánaða á sama tíma í fyrra. Árshækkun launavísitölunnar mælist nú 8,1 prósent.
Þrátt fyrir talsverða hækkun launa undanfarið ár hefur verðbólgan elt hækkunina uppi. Kaupmáttur launa dróst saman um 1,3 prósent á milli mánaða í júlí og hefur kaupmáttur launa nú dregist saman um 1,7 prósent á ársgrundvelli.
Líklegt þykir að þessi þróun haldi áfram enda mælist verðbólga nú 9,9 prósent og þrátt fyrir að útlit sé fyrir að hún taki að hjaðna á næstunni muni hún áfram mælast allmikil á næstu misserum.
„Við spáum því að verðbólga verði áfram mikil út árið. Ólíklegt er að laun munu hækka hraðar en verðlag á næstunni og því er frekari rýrnun kaupmáttar í vændum. Ef verðbólga tekur að hjaðna hratt á næsta ári mun þróunin svo snúast við á nýjan leik. Á næstu mánuðum munu kjarasamningar renna út og útlit fyrir erfiðar kjaraviðræður í vetur. Útkoma samningana mun ráða miklu bæði um launaþróun og um verðbólguþróunina, og þar með þróun kaupmáttar næstu misserin,“ segir í Korni greiningar Íslandsbanka.