„Þetta var alveg fyrirséð. Það rigndi vel þessa daga og þetta er í raun jökulá, á sem rennur þegar bræðsla er af Drangajökli. Þegar það er rigning og aukin leysing skilar hún meiru niður af leir og drullu.“
Þetta segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur í samtali við mbl.is um gervitunglamyndir af Leirufirði í Jökulfjörðum sem sýna miklar breytingar frá 16. ágúst til 21. ágúst.
Í fjörðinn rennur Jökulá úr Drangajökli, og er augljóst að mikið jökulvatn hefur verið í ánni undangengna daga. Á myndunum má sjá drulluslóð í firðinum.
Líkt og mbl.is hefur greint frá voru nokkrar gular viðvaranir í gildi á Vestfjörðum í síðustu viku og rigndi mikið.
Óli Þór bendir á að fjörðurinn, sem heitir Leirufjörður, hafi fengið nafn sitt af ástæðu.
Bendir hann jafnframt á að þó svo að jöklar líti út fyrir að vera mjög hreinir á myndum sé það ekki raunin. Jökulvatnið geti því borið með sér mikla drullu.