„Erfiðara en orð fá lýst“

Flaggað í hálfa stöng á Blönduósi.
Flaggað í hálfa stöng á Blönduósi. mbl.is/Hákon

Börn hjónanna sem voru skotin á heimili sínu á Blönduósi hafa sent frá sér yfirlýsingu. Þar segja þau erfiðara en orð fá lýst að ganga í gegnum það sem þau eru að upplifa núna.

Þau segja fjölmiðla hafa flutt rangar og villandi fréttir af atvikum og þeir gangi nærri friðhelgi einkalífs þeirra með myndbirtingum og endurteknum hringingum í þau, nánustu vini og ættingja.

„Þess vegna viljum við góðfúslega biðja fjölmiðla um að virða friðhelgi einkalífs okkar, fjölskyldu og heimilis. Við þurfum frið til þess að takast á við þetta áfall, til að syrgja móður okkar og hlúa að föður okkar. Því í dag er ekkert mikilvægara en að hann nái heilsu á ný,“ segir í yfirlýsingunni. 

Yfirlýsingin í heild sinni:

Á sunnudaginn breyttist líf okkar til frambúðar og verður aldrei aftur eins. Við syrgjum móður okkar og faðir okkar er alvarlega særður á spítala. Okkur hafa borist hlýjar kveðjur og stuðningur úr öllum landshornum. Fyrir það erum við þakklát.

Það er erfiðara en orð fá lýst að ganga í gegnum það sem við erum að upplifa núna. Það er enn þyngra þegar fjölmiðlar flytja rangar og villandi fréttir af atvikum og ganga nærri friðhelgi einkalífs okkar með myndbirtingum og síendurteknum hringingum í okkur, nánustu vini og ættingja.

Þess vegna viljum við góðfúslega biðja fjölmiðla um að virða friðhelgi einkalífs okkar, fjölskyldu og heimilis. Við þurfum frið til þess að takast á við þetta áfall, til að syrgja móður okkar og hlúa að föður okkar. Því í dag er ekkert mikilvægara en að hann nái heilsu á ný.

Allt sem við höfum að segja kemur fram hér að ofan. Við munum ekki tjá okkar frekar. Við ítrekum að við biðjum fjölmiðla að virða það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert