Niðurstöður réttarlæknis vegna rannsóknar á líkamsleifum sem voru grafnar upp úr kirkjugarði á Vestfjörðum í vor liggja ekki fyrir.
Ekki er hægt að segja til um hvenær frekari gögn berast vegna málsins, að því er segir í svari lögreglunnar á Vestfjörðum við fyrirspurn mbl.is.
Sömuleiðis kemur fram í svarinu að málið sé til rannsóknar.
Líkamsleifarnar sem lögreglan gróf upp tilheyra 19 ára pilti sem lést í umferðarslysi í Óshlíð, milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, fyrir tæpum 50 árum. Hann var farþegi í bíl sem talið er að hafi farið út af í blindbeygju.
Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því í lok maí að henni hefði borist ábending um að umrætt slys hefði ekki verið upplýst nægjanlega á sínum tíma. Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn eru taldar líkur á því að hægt sé að upplýsa nánar um tildrög atviksins.