Ungir sjálfstæðismenn stöðvaðir við sendiráðið

Mótmælendur hugðust mála fána úkraínu á gangstéttina framan við sendiráðið …
Mótmælendur hugðust mála fána úkraínu á gangstéttina framan við sendiráðið en voru stöðvaðir áður en mynd komst á hann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölmennt lögreglulið hafði afskipti af átta ungum sjálfstæðismönnum sem í kvöld hugðust mála úkraínska fánann á götuna framan við rússneska sendiráðið og minna þar með á stríðið í Úkraínu, sem hefur staðið í sex mánuði.

Steinar Ingi Kolbeins, varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, ræddi við mbl.is.

„Í grunninn snýst málið um að núna á morgun eru sex mánuðir síðan Rússar réðust inn í Úkraínu auk þess sem þjóðhátíðardagur Úkraínu er á morgun,“ segir Steinar en hann tilheyrði átta manna hópnum sem lögregla hafði afskipti af við sendiráðið við Garðastræti nú fyrir skömmu.

Lögregla hafði mikinn viðbúnað við sendiráðið í kvöld og var …
Lögregla hafði mikinn viðbúnað við sendiráðið í kvöld og var á staðnum áður en hóp ungra sjálfstæðismanna bar að garði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gleymist í hversdagsleikanum

Var ætlun hópsins að minna á voðaverk Rússa í nágrannalandi sínu með því að mála fána Úkraínu á gangstéttina framan við sendiráðið. Ekki náði verkið þó langt og varð aðeins einn gulur og annar blár pollur á gangstéttinni þar sem fjölmennt lið lögreglu stöðvaði mótmælin.

„Við vorum að ræða að það gleymist stundum í hversdagsleikanum hvað er að gerast í Úkraínu,“ segir Steinar, sex mánuðir séu fljótir að líða „og á meðan við lifum okkar hversdagslífi rignir sprengjunum yfir Karkív og fleiri borgir og fólk er að flýja heimili sín.“

Lögregla skoðaði skilríki hjá öllum að sögn Steinars.
Lögregla skoðaði skilríki hjá öllum að sögn Steinars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sorglegt að finnast þetta sorglegt

Á þetta hefðu mótmælendurnir átta ætlað sér að minna. „Þeir stoppuðu okkur alveg í byrjun. Þegar við mættum á svæðið voru fjögur lögregluhjól og tveir eða þrír bílar á sveimi þarna og sérsveitarbíll, ef þetta var þá sérsveitin, alla vega lögreglumenn í öðruvísi búningum,“ segir Steinar enn fremur.

Atburðir kvöldsins við Garðastræti.
Atburðir kvöldsins við Garðastræti. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lögreglan hafði á orði að þetta væri sorglegt og það stakk mann aðeins, skrýtin skilaboð á vettvangi þegar stríð er í gangi, fjöldamorð og fólk á flótta. Það er sorglegt að lögreglu finnist þetta sorgleg viðbrögð hjá okkur,“ bætir hann við.

Hann segir lögreglu líkast til hafa haft viðbúnað við sendiráðið nú þegar sex mánuðir séu liðnir af stríðinu og hefði allt farið friðsamlega fram.

„Í grunninn snýst málið um að núna á morgun eru …
„Í grunninn snýst málið um að núna á morgun eru sex mánuðir síðan Rússar réðust inn í Úkraínu auk þess sem þjóðhátíðardagur Úkraínu er á morgun,“ segir Steinar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þeir bara komu og stoppuðu okkur og skoðuðu skilríki hjá öllum. Við ætluðum bara að mála þessa götu, þetta er eins og hver önnur gata í Reykjavík. Mergur málsins er bara að það er stríð í Úkraínu, fólk er að flýja í massavís og það gleymist og það má bara ekki gleymast,“ segir Steinar að lokum.

„Mergur málsins er bara að það er stríð í Úkraínu, …
„Mergur málsins er bara að það er stríð í Úkraínu, fólk er að flýja í massavís og það gleymist og það má bara ekki gleymast.“ mbl.is/Kristinn Magnússon
Málverkið eins langt og það náði.
Málverkið eins langt og það náði. mbl.is/Kristinn Magnússon
Stríðið í Úkraínu hefur staðið í sex mánuði á morgun, …
Stríðið í Úkraínu hefur staðið í sex mánuði á morgun, miðvikudag, auk þess sem þá er þjóðhátíðardagur landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert