Ekki rétt að senda neytendum reikninginn

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

Félag atvinnurekenda (FA) hefur sent matvælaráðherra og fjármálaráðherra erindi og hvatt stjórnvöld til að beita sér fyrir afnámi 76% tolls á franskar kartöflur. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda.

Í dag var greint frá því að Þykkvibær hafi ákveðið að hætta fram­leiðslu á frönsk­um kart­öfl­um. Fyrirtækið hefur verið eini íslenski framleiðandinn á vörunni.

Í bréfi sínu til ráðherranna rifjar félagið upp fyrri tillögur sínar um að tollurinn yrði felldur niður.

„Hann hefur um árabil eingöngu verndað framleiðslu þessa eina fyrirtækis, sem þar að auki framleiddi franskar að hluta til úr innfluttu hráefni,“ segir í tilkynningunni.

Þykkvibær hættir framleiðslu á frönskum.
Þykkvibær hættir framleiðslu á frönskum. mbl.is/Helgi Bjarnason

Beiti sér strax

Í bréfinu kemur fram að undanfarin ár hafi um 95% franskra kartaflna, sem íslenskir neytendur leggi sér til munns, verið innflutt vara. Á franskar kartöflur leggist 76% tollur samkvæmt tollskrá og  það hæsti prósentutollur á matvöru sem hægt  að finna í tollskránni.

„Í ljósi þess að hæsti verndartollurinn í íslensku tollskránni verndar ekkert lengur, hvorki innlenda kartöfluframleiðslu né eina innlenda iðnfyrirtækið sem framleiddi franskar kartöflur, hvetur FA matvælaráðherra og fjármálaráðherra eindregið til að beita sér fyrir því strax og Alþingi kemur saman í haust að tollurinn verði felldur úr gildi.

Hægt er að hafa ýmsar skoðanir á réttmæti þess að neytendum sé sendur reikningurinn fyrir vernd íslenskrar landbúnaðarframleiðslu, en það er með engu móti hægt að réttlæta að þeim sé sendur himinhár reikningur fyrir því sem ekkert er,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra til ráðherranna.

Stjórnvöld hljóta auk þess að telja það skyldu sína, á tímum er verðbólga er í sögulegum hæðum, að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að lækka verð á neysluvörum. Afnám tolls á franskar kartöflur er augljós leið til þess,“ segir enn fremur í bréfinu.

Blómleg snakkframleiðsla þótt tollurinn sé farinn

FA bendir á að tollurinn á franskar kartöflur sé að mestu leyti hliðstæður 59% tolli á kartöflusnakk, sem var í gildi til áramóta 2017. Hann hafi aðallega verndað eitt fyrirtæki sem framleiddi snakk úr innfluttu hráefni, Stjörnusnakk. Alþingi hafi engu að síður fellt hann úr gildi haustið 2016.

Segir að afleiðingin þess hafi verið sú að um áramótin 2017 lækkaði innflutt snakk í verði um 22-43%. Innlenda framleiðslan hafi vissulega fengið harðari samkeppni, en ekki verði annað séð en að Stjörnusnakk sé enn í blómlegum rekstri.

Jafnframt er bent á að eftir afnám tollsins hafi frumkvöðlar einnig sett á stofn nýtt snakkfyrirtæki, Ljótu kartöflurnar, sem framleiði flögur úr íslenskum kartöflum við góðan orðstír.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert