Flæðir í gegnum alþýðlegan farveg

Atriði úr kvikmyndinni The Northman. Jóhanna var ráðgjafi við gerð …
Atriði úr kvikmyndinni The Northman. Jóhanna var ráðgjafi við gerð myndarinnar. Rithöfundurinn Sjón var annar handritshöfunda og Björk Guðmundsdóttir lék í myndinni.

Áhuginn á menningararfi okkar Íslendinga er afar mikill víða um heim og hefur verið undanfarin ár.

Birtingarmynd þess er þó ekki endilega með þeim hætti að erlendis sitji fólk með þýddar útgáfur af Snorra-Eddu eða Njálu í höndunum. Afþreyingariðnaðurinn hefur komið auga á tækifærin sem felast í því að nýta sér norrænu goðafræðina eða víkinga. Fyrir vikið hefur framboðið af efni þessu tengdu verið mikið en í ýmsu formi. Finna má kvikmyndir, teiknimyndir, sjónvarpsþætti, bækur og tölvuleiki sem tengjast fornbókmenntunum eða víkingum. 

Sunnudagsblaðið ræddi við þau Ármann Jakobsson, Jóhönnu Katrínu Friðriksdóttur og Ólaf Gunnarsson um þennan erlenda áhuga. 

„Ég er jákvæður gagnvart þessu og var til að mynda fenginn til að segja álit mitt á tölvuleikjum þótt ég sé svo aldraður að ég hafi aldrei beinlínis leikið tölvuleiki af nýju kynslóðinni. Fyrir mér eru tölvuleikir bara Pac-Man og hef ekki fylgst með þeirri þróun. En ég gerði þetta samt vegna þess að mér finnst að við eigum að vera jákvæð út í þessa framleiðslu. Ég held að þetta geti ekki haft neitt nema góð áhrif. Ef einhverjir lesa ekkert meira þá sitja þeir kannski uppi með litla þekkingu en þannig er það bara. Margir halda áfram og læra meira um norrænu sögurnar. Því fleiri sem hafa heyrt um fornsögurnar því fleiri munu beinlínis lesa þær og því fleiri munu öðlast djúpan skilning á þeim,“ segir Ármann, sem er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. 

Fjórði vinsælasti þátturinn um tíma

Rithöfundurinn Ólafur Gunnarsson sinnti ráðgjafarhlutverki í víkingaþáttunum Vikings sem nutu mikilla vinsælda.

„Á tímabili var þetta sá sjónvarpsþáttur sem var með fjórða mesta áhorfið í heiminum. Alls kyns klúbbar voru að horfa á þetta og mikið um að aðdáendur hefðu samband. Michael Hirst [handritshöfundur] kom til dæmis fram á þingum þar sem hann svaraði fyrirspurnum,“ segir Ólafur meðal annars. 

Jóhanna Katrín sendi frá sér bókina Valkyrie: The women of the Viking world árið 2020. En það var áður en bókin kom út sem óskað var eftir kröftum hennar í sambandi við myndina The Northman.

„Einn af framleiðendunum hafði samband við mig í gegnum forlagið Bloomsbury en ég man hvað það kom mér á óvart því bókin var ekki komin út. Við handritsgerðina fólst mín aðkoma í því að koma með ábendingar um allt mögulegt. Að mörgu þarf að huga. Þú gætir til dæmis verið með atriði þar sem tvær persónur tala saman og þá er spurning hvað aðrir sem sjást í bakgrunni eru að gera á meðan. Setja þarf upp atriðin með ýmislegt þess háttar í huga. Nicole Kidman er til dæmis að vefa í einu atriðinu. Einnig snerist þetta um hvernig vísað er í goðafræðina og trúna,“ segir Jóhanna meðal annars. 

Greinina í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og þar er rætt frekar við þau Ármann, Ólaf og Jóhönnu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert