Samkeppniseftirlitið þarf að formfesta betur skipulag innra eftirlits og innleiða innri endurskoðun í samræmi við ákvæði laga. Þá þarf stofnunin að vinna áfram að þróun aðgengilegra leiðbeininga og hagnýtra upplýsinga um samkeppnismál og ljúka endurskoðun bæði málsmeðferðar- og verklagsreglna.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Samkeppniseftirlitsins sem gerð var að beiðni Alþingis. Niðurstöðurnar voru kynntar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis dag.
Ríkisendurskoðun leggur fram tillögur til úrbóta í átta liðum. Talið er mikilvægt að reglubundið mat á ábata af starfsemi Samkeppniseftirlitsins verði nýtt við skilgreiningu áherslna, markmiða og árangursmælikvarða til framtíðar.
Þá telur Ríkisendurskoðun að menningar- og viðskiptaráðuneyti þurfi í samstarfi við Samkeppniseftirlitið að greina með ítarlegri hætti áhrif af breyttum veltumörkum í samrunamálum. Ráðuneytið og stofnunin þurfi að leggja mat á forsendur, tilhögun og framkvæmd ákvæða samkeppnislaga um samrunagjald og taka möguleg brot samrunaaðila við upplýsingagjöf í samrunatilkynningum til ítarlegrar skoðunar.
„Að lokum telur Ríkisendurskoðun að Samkeppniseftirlitið þurfi í samvinnu við ráðuneytið að kanna hvaða leiðir séu helst færar til að skýra heimild fyrir skipun eftirlitsaðila vegna sátta á grundvelli samkeppnislaga og útfæra nánar verklagsreglur um störf þeirra.“