VR og LÍV birta SA kröfugerð vegna kjarasamninga

VR og LÍV hafa nú birt SA kröfugerð sína.
VR og LÍV hafa nú birt SA kröfugerð sína. Haraldur Jónasson/Hari

VR og LÍV hafa birt Samtökum atvinnulífsins (SA) kröfugerð vegna komandi kjarasamninga, en samningur á milli VR/LÍV og SA rennur út þann 1. nóvember næstkomandi.

Meginmarkmiðið þegar kemur að launaliðnum er að verja árangur sem náðist í síðustu kjarasamningum fyrir þau sem eru með lægstu launin en jafnframt tryggja að allt launafólk fái notið jafnræðis þegar kemur að launahækkunum.

Aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna liggur til grundvallar launakröfum VR og LÍV og að launafólk geti lifað mannsæmandi lífi á dagvinnulaunum sínum. Lágmarkslaun eiga að duga til framfærslu samkvæmt þeim viðmiðum sem fyrir liggja.

VR og LÍV gera þá kröfu að stjórnvöld komi að borðinu með aðgerðir til að styrkja launalið kröfugerðarinnar, t.d. í skatta- og vaxtamálum, með hækkun barnabóta og afnámi verðtryggingar á neytendalánum.

Þá gera VR og LÍV þá kröfu að vinnuvikan verði stytt í fjóra daga, eða sem svarar til 32 stundum á viku, á samningstímanum, án skerðingar á launum. Í samræmi við þetta telja VR og LÍV mikilvægt að lög um 40 stunda vinnuviku, verði endurskoðuð í takt við þær kröfur sem samtök launafólks gera nú um styttri vinnutíma.

Afnám verðtryggingar og lægri álögur 

„Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er óhjákvæmileg því staðan kallar á mikilvægar breytingar á grundvallarkerfum íslensks samfélags. Stjórnvöld verða að koma að borðinu með samtökum launafólks og atvinnurekenda eigi kjarasamningaviðræður að skila þeim ávinningi sem vonir standa til,“ segir í kröfugerðinni.

Þá gera VR og LÍV þær kröfur til stjórnvalda að þau afnemi verðtryggingu á neytendalánum, lækki álögur og skatta á launafólk og lækki virðisaukaskatt á nauðsynjavörum.

Einnig sé uppstokkunar þörf á húsnæðismarkaði og þjóðarsátt um næstu skref. Gerð er krafa um að þak verði sett á leigu og ungu fólki auðvelduð fyrstu kaup með auknum stuðningi frá hinu opinbera og lóðaframboð aukið verulega með aðkomu sveitarfélaga.

Eins og staðan sé nú sé framboð húsnæðis, bæði til eignar og leigu, ekki í neinu samræmi við eftirspurn.

„VR og LÍV krefjast þess einnig að stjórnvöld hlúi betur að þeim sem þurfa meiri aðstoð með því að minnka skerðingar í almannatryggingakerfinu, afnema tekjutengingar bóta og niðurgreiða sálfræðiaðstoð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert