„Það lítur út fyrir að sprunga hafi opnast í jöklinum, á gönguleiðinni, og það voru þýskir ferðamenn sem uppgötvuðu hana í gær,“ segir Þórhallur Jóhannsson, landvörður í Snæfelli, í samtali við mbl.is um tíu metra djúpa sprungu sem opnast hefur í um 1.600 metra hæð á fjallinu sem liggur innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
Kveður Þórhallur það mestu mildi að ferðamennirnir voru í línu því einn þeirra féll ofan í sprunguna. Varð honum þó ekki meint af. „Þetta hefur ekki komið fyrir áður á þessu svæði síðan ég hóf störf hérna,“ svarar Þórhallur, inntur eftir því hve algengar slíkar sprungumyndanir séu í Snæfelli.
Landverðir munu kanna aðstæður á fjallinu um leið og veður leyfir, segir á Facebook-síðu Vatnajökulsþjóðgarðs. „Já, þá könnum við aðstæður svo við getum gefið ferðamönnum sem ætla að fara upp sem nákvæmastar upplýsingar,“ útskýrir Þórhallur og bætir því við að eins og sakir standa mæli þeir landverðir ekki með að fólk fari upp nema það búi yfir haldgóðri fjallareynslu og góðum búnaði.
Í tilkynningu þjóðgarðsins á Facebook má enn fremur lesa um snjóflóðahættu í norðurhlíð Snæfells. Það er líklega algengara en að stórar sprungur myndist eða hvað?
„Það er náttúrulega ekki algengt að hægt sé að skíða á fjallinu svona langt fram eftir sumri þannig að í raun er snjóflóðahætta ekki algeng,“ svarar Þórhallur og bætir því aðspurður við að nokkuð hafi verið um ferðamenn sem leiti í skála á svæðinu. „Snæfell er vinsælt þegar er gott veður en það hefur bara ekki verið neitt rosalega gott veður hjá okkur í sumar,“ segir Þórhallur og bætir því við að ferðafólki hafi gengið vel að ganga á fjallið fram til þessa. „En núna verða kannski einhver þáttaskil í því,“ segir Þórhallur Jóhannsson landvörður að lokum.