Grunur um stórfelldan launaþjófnað á Flame og Bambus

Veitingastaðurinn Bambus er í Borgartúni 16.
Veitingastaðurinn Bambus er í Borgartúni 16. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grunur um stórfelldan launaþjófnað vaknaði við vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna á tveimur veitingastöðum í Reykjavík á föstudaginn. 

Veitingastaðirnir sem um ræðir eru Flame í Katrínartúni og Bambus í Borgartúni. 

Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna, segir í samtali við mbl.is að um fjórir starfsmenn hafi verið á veitingastöðunum tveimur, sem eru í eigu sömu aðila. Þrír þeirra hafi þegið aðstoð við að komast úr aðstæðum og þegið að flytjast í íbúð á vegum Fagfélaganna. Starfsmennirnir voru áður í íbúð á vegum vinnuveitenda.

Tilkynnt lögreglu

Þá segir Benóný að starfsfólkið hafi unnið langar vaktir, tíu til sextán vinnustundir á dag, sex daga vikunnar, og fengið fyrir það lágmarkslaun. Ekki hafi verið greitt vaktaálag, yfirvinna eða orlof.

Til viðbótar hafi komið ýmis frádráttur á laun þeirra, sem er í skoðun hvort að standist. 

Benóný segir að farið hafi verið í eftirlit á veitingastaðina tvo eftir að ábending barst Fagfélögunum. 

Hann segir að málið hafi verið tilkynnt lögreglu og að vinna við að reikna út ógoldin laun standi yfir. Í framhaldinu verði gerð launakrafa fyrir starfsfólkið og hafa þau þegið aðstoð við að fá vinnu á nýjum vinnustað. 

Á misskilningi byggt

Davíð Fei Wang, eigandi veitingastaðanna tveggja, segir í samtali við mbl.is að málið sé byggt á misskilningi og að málið sé leyst. Benóný og Davíð ber ekki saman um málalyktir.

„Það er búið að fara yfir gögn. Þetta er í góðum farvegi,“ segir Davíð og ítrekar að málið sé á misskilningi byggt. Hann segist vera í samtali við Matvís hjá Fagfélögunum til þess að útskýra sitt mál.

„Ef það þarf að bæta eitthvað þá bætum við það,“ segir hann. 

Spurður á hverju misskilningurinn byggist segist Davíð ekki getað svarað því fyrr en málið sé frágengið. Á hvorugum veitingastaðnum er hægt að bóka borð á dineout.is sem stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert