Boðað hefur verið til samverustundar á íþróttavellinum á Blönduósi annað kvöld, föstudag, þar sem kveikt verður á friðarkertum.
„Við ætlum að leggja friðarkertin á hlaupabrautina allan hringinn í ljósaskiptunum og sýna þannig samhug og hluttekningu til þeirra sem eiga um sárt að binda,“ segir í tilkynningu sem birt var í kvöld á vef sveitarstjórnar Húnabyggðar.
„Biðjum alla þá sem vilja senda góða strauma og hlýju að mæta og taka þátt í þessu með okkur. Með kærleikskveðjum, sveitarstjórn Húnabyggðar.“
Yfir Blönduósi hefur hvílt mikil sorg eftir atburðina að morgni sunnudags, þegar maður réðst inn á heimili hjóna, skaut konu til bana og særði mann hennar alvarlega. Sonur hjónanna er talinn hafa ráðið niðurlögum árásarmannsins, sem lést á vettvangi.