Reynslan af styttingu náms til stúdentsprófs, úr fjórum árum í þrjú, er misjöfn. Þetta segir Sólveig Guðrún Hannesdóttir, nýr rektor Menntaskólans í Reykjavík. Hún segir skólann ekki skila frá sér jafn sterkum nemendum nú og var – slíkt segi sig í rauninni sjálft.
Ekki hafi heldur gengið eftir eins og vænst var að eitthvað af námsefni framhaldsskólastigsins færðist í grunnskólana, sem séu margir og misjafnir.
Nemendur í MR nú í upphafi skólaárs eru alls 692. Nýnemar, það er á fyrsta ári í 4. bekk, eru 255. Aðsóknin er mjög góð og 244 nemendur sem voru að ljúka 10. bekk settu MR í fyrsta sæti þegar þeir völdu skóla.
Í vetur verður 5. bekk MR kennt í leiguhúsnæði við Austurstræti. Rektor segir brýnt nú að reisa nýjar byggingar fyrir skólann í Lækjargötu.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.