Vilja ekki fleiri tillögur frá borgarráði

Þóra og Bjarki mættu með 15 mánaða barn sitt í …
Þóra og Bjarki mættu með 15 mánaða barn sitt í Ráðhúsið í morgun. Þau kalla eftir frekari aðgerðum. mbl.is/Inga Þóra

„Núna væri ég til í að vera búinn að skutla henni á leikskóla þar sem hún fengi að hitta önnur börn og að við gætum fengið að sinna okkar án þess að vera með endalausar áhyggjur og kvíða yfir því hvert hún eigi að fara og hvernig við leysum næsta dag.“

Þetta segir Bjarki Brynjarsson, faðir 15 mánaða stúlku sem hefur ekki fengið leikskólapláss hjá borginni, í samtali við mbl.is.

Bjarki mætti ásamt konu sinni, Þóru Sigurðardóttur, í Ráðhús Reykjavíkur í morgun til að halda þrýstingi á borgaryfirvöldum um að leysa leikskólavandann.

Fyrir viku síðan fjölmenntu foreldrar í Ráðhúsinu til að mótmæla aðgerðarleysi borgaryfirvalda. Kölluðu þeir eftir aðgerðum sem myndu leysa vandann sem allra fyrst.

Borgarráð, sem fundar alltaf á fimmtudögum, tók hlé frá fundi sínum og kynnti foreldrum og fjölmiðlafólki sem var viðstatt sex tillögur að lausnum á vandanum.

Frá mótmælunum í síðustu viku. Mótmælendum var vísað í mötuneyti …
Frá mótmælunum í síðustu viku. Mótmælendum var vísað í mötuneyti Ráðhússins. mbl.is/Hákon

Ekki skortur á tillögum

Spurður hvað honum finnist um þessar sex tillögur borgarráðs segir Bjarki: 

„Það var ekkert nýtt sem að kom fram. Það var bara búið að breyta tölum og færa dagsetningar. Það var engin sjáanlega lausn eins og við höfum verið að kalla eftir 1. september. Hún var ekki til staðar og er ekki enn. Við erum enn í sömu stöðu, ekki með leikskólapláss og sjáum ekki fram á að fá það á næstu misserum.“

Bjarki vill ekki sjá frekari tillögur frá borginni, kallar hann eftir alvöru aðgerðum.

„Við erum ekki að kalla eftir frekari tillögum, það hefur ekki verið skortur á þeim. Við erum að kalla eftir alvöru aðgerðum, alvöru lausnum og að það séu kynnt úrræði sem að virka núna en ekki á næsta ári.“

Betra að fá einhverja hjálpa frekar en enga

Bjarki og Þóra ræddu við Skúla Helgason, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og formann stýri­hóps borg­ar­inn­ar í upp­bygg­ingu leik­skóla, í Ráðhúsinu í morgun. 

„Það kom það sama fram og hefur alltaf komið fram. Það eru þessar útskýringar á af hverju tafir verða. Við fengum líka útskýringu á því af hverju þessi greining þeirra um að öll börn myndu fá pláss í haust við 12 mánaða aldur var svona agalega röng,“ segir Bjarki um spjall þeirra við Skúla.

Skúli Helgason kynnti tillögur borgarráðs á fimmtudaginn síðasta.
Skúli Helgason kynnti tillögur borgarráðs á fimmtudaginn síðasta. mbl.is/Hákon

Bjarki og Þóra spurðu Skúla einnig hvort ekki væri hægt að skipta leikskólaskólaplássi þeirra sem bíða nú eftir plássi á tvö börn. Segja þau að það myndi hjálpa mörgum foreldrum að fá einhverja aðstoð í stað engrar.

„Þá yrði einu plássi úthlutað á tvö börn. Annað yrði frá átta til tólf og hitt frá tólf til fjögur. Ég held að myndi stytta þennan biðlista um nokkur hundruð pláss. Þá erum við að nota innviði og starfsfólk sem er til en ekki að bíða eftir því að nýir skólar verði byggðir og að nýtt starfsfólk verði ráðið,“ segir Bjarki

„Þetta myndi leysa vanda fleiri fjölskyldna núna þegar fleiri þurfa einhverja hjálp frekar en enga hjálp,“ segir Þóra og bætir við að Skúli hafi tekið vel í tillöguna. 

Frá fyrstu mótmælunum. Þá var mótmælt fyrir framan fundarsal borgarráðs.
Frá fyrstu mótmælunum. Þá var mótmælt fyrir framan fundarsal borgarráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgaryfirvöld ættu að hlusta á foreldra

Telja Bjarki og Þóra að ef að borgaryfirvöld myndu hlusta á tillögur foreldra væri eflaust hægt að leysa leikskólavandann hraðar og betur.

„Þetta eru lausnir sem þau myndu fá meira af ef að þau myndu í alvöru mæta og tala við foreldrana. Eftir að við mættum hingað fyrst og stóðum fyrir framan fundarherbergið þá var okkur í seinna skiptið troðið inn í mötuneytið þannig að við værum nú alveg örugglega ekki fyrir þeim,“ segir Bjarki og bætir við:

„Ef þau myndu bjóða foreldrum aðeins meira að borðinu til að hlusta á þessar lausnir, og kannski reyna að hrinda þeim í framkvæmd, þá væri hægt að leysa þetta hraðar og betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert