Portúgölsk kona var í gær dæmd í 14 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa flutt inn samtals 957 grömm af kókaíni með 80-85% styrkleika til landsins í júní, en fíkniefnin flutti konan með sér í flugi frá Lissabon til Íslands.
Fyrir dómi játaði konan, Aminata Seidi, brot sín skýlaust, en hafnaði kröfu ákæruvaldsins um upptökukröfu á farsíma. Taldi dómarinn játninguna og rannsóknargögn sanna sekt konunnar og var hæfilegur dómur talinn 14 mánuðir.
Fyrir dóminum kom ekkert fram um það hvort konan væri eigandi efnisins né hvort hún hafi tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þess til landsins með öðrum hætti en að flytja þau gegn greiðslu. Þá segir dómurinn að skýrlega komi fram í gögnum málsins að konan hafi notað farsímann við framkvæmd brotsins og því séu skilyrði upptöku hans til staðar.
Konan hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 28. júní og dregst sá tími frá dóminum. Þá þarf konan jafnframt að greiða verjanda sínum rúmlega eina milljón og 467 í annan sakarkostnað.