66° norður úlpu stolið úr strætóskýli

Fyrir og eftir að úlpunni var stolið í nótt.
Fyrir og eftir að úlpunni var stolið í nótt. Samsett mynd

Úlpa frá 66° norður fékk að vera til sýnis í strætóskýli við Lækjartorg í um viku áður en henni var stolið.

„Við vorum að fagna afmælisútgáfu af Þórsmerkurúlpunni sem kom fyrst árið 2006. Við höfum gert það nokkru sinni áður í gegnum tíðina að setja flík í strætóskýli,“ segir Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66° norður, í samtali við mbl.is.

„Þetta fór upp á fimmtudaginn í síðustu viku. Í nótt hefur einhver brotist inn í skýlið og stolið úlpunni. Það er leiðinlegt hvernig fór en þetta fékk þó að standa þarna í viku.“

Meta tjónið í sameiningu

Úlpan kostar 105.000 krónur en óvíst um hve mikið tjón er að ræða vegna skemmdarverkana í strætóskýlinu.

Að sögn Fannars vann fyrirtækið Billboard auglýsinguna í strætóskýlinu með 66 og eru fyrirtækin tvö að meta tjónið og að skoða næstu skref.

„Við munum alla vega tilkynna það að úlpunni hafi verið stolið,“ segir Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert