Fordæmdu harðlega tilefnislaust og ólöglegt stríð

Frá undirrituninni fyrr í dag.
Frá undirrituninni fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Íslands undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu á hátíðarsamkomu í Höfða í Reykjavík í dag í tilefni af þriggja áratuga stjórnmálasambandi ríkjanna. Í yfirlýsingunni árétta ríkin einlægan vilja til samvinnu sín á milli, fordæma innrás Rússlands í Úkraínu og undirstrika samstöðu með úkraínsku þjóðinni.

Forsetar Eystrasaltsríkjanna eru staddir í opinberri heimsókn hér á landi ásamt föruneyti. Heimsóknin er í tilefni af því að þrír áratugir eru liðnir frá því að ríkin tóku upp stjórnmálasamband á ný eftir að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna endurreisn sjálfstæðis Eistlands, Lettlands og Litáens í kjölfar falls Sovétríkjanna, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Í morgun var efnt til sérstakrar hátíðarsamkomu í Höfða í Reykjavík sem hófst á því að Dagur B. Eggertssonar borgarstjóri bauð viðstadda velkomna. Þeir Egils Levits, forseti Lettlands, Gitanas Nausèda, forseti Litáens og Alar Karis, forseti Eistlands fluttu svo stutt ávörp en að því búnu rifjaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra upp tímamótin og setti í sögulegt samhengi.

Óvenjulegt framtak

„Það var líka hér, á þessum ágústdegi fyrir 31 ári síðan, þegar utanríkisráðherrar Eistlands, Lettlands og Litáen og utanríkisráðherra Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, skrifuðu undir skjöl um stjórnmálasambönd Íslands við hvert og eitt Eystrasaltsríkjanna. Í pólitísku samhengi þess tíma var þetta framtak óvenjulegt,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu í ávarpinu og bætti því við að önnur ríki hefðu fylgt í kjölfarið og Eystrasaltsríkin hefðu á skömmum tíma hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem frjáls og fullvalda ríki.

Að ávarpinu loknu undirrituðu þau Þórdís Kolbrún, Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands og Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens, sameiginlega yfirlýsingu í tilefni af því að þrír áratugir væru liðnir frá því að stjórnmálasambandi á milli Íslands og ríkjanna þriggja var aftur komið á. Í yfirlýsingunni árétta ráðherrarnir stjórnmálalega samstöðu landanna og hagmuni af því að rækta sameiginlega vináttu, styðja við tvíhliða viðskipti og tengsl auk þess að efla alþjóðlega samvinnu, að því er ráðuneytið greinir frá. 

Lögðu áherslu á staðfasta samstöðu með Úkraínu

Í yfirlýsingunni fordæma ráðherrarnir harðlega „tilefnislaust, óréttlætanlegt og ólöglegt stríð Rússa í Úkraínu“ og leggja áherslu á staðfasta samstöðu með úkraínsku þjóðinni og skuldbindingu um að veita Úkraínu frekari stuðning í viðnámi sínu gegn árásum Rússa „í þágu allrar Evrópu og sameiginlegra gilda okkar.“ Um leið undirstrika ráðherrarnir skuldbindingar um marghliða samvinnu, mannréttindi og þau lýðræðislegu gildi sem alþjóðakerfið byggist á, lýsa yfir stuðningi við fríverslun og ítreka nauðsyn samvinnu um öryggis- og varnarmál. Þá séu viðbrögð við loftslagsbreytingum „mikilvægari en nokkru sinni fyrr og forgangsatriði í samstarfi okkar,“ eins og segir í sameiginlegu yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert