Mikill eldur stóð úr íbúð í fjölbýlishúsi við Víðivang í Hafnarfirðinum í dag en slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út klukkan 14:17 vegna þessa. Engan sakaði í eldinum en slökkviliðið staðfestir í samtalið við mbl.is að enginn hafi verið inn í íbúðinni þegar að eldurinn braust út.
Að þeirra sögn gekk slökkvistarfið vel og tók stuttan tíma að slökkva í eldinum. Þá voru fjórir slökkviliðsbílar sendir á staðinn og um það bil sautján slökkviliðsmenn. Tveimur bílum var þó snúið við á leiðinni. Var búið að slökkva í eldinum klukkan 14:28, ellefu mínútum eftir að tilkynning barst.
Þegar slökkviliði bar að garði stóð íbúðin í ljósum logum. „Þetta var töluverður eldur þarna í einni íbúð og var farið að loga út um glugga þegar við komum.“
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins segir að þótt að enginn hafi verið inn í íbúðinni hafi þó verið nokkur hætta til staðar eins og er alltaf þegar eldur kemur upp í fjölbýlishúsi og var því mikilvægt að hafa hraðar hendur. Aðeins tók nokkrar mínútur að slökkva eldinn.
Ekki er enn vitað hver upptök eldsins voru en það sætir nú rannsókn.