Lenya Rún Taka Karim, varaþingmaður Pírata, segir finnsku þjóðina þurfa að horfast í augu við það að hún hafi kosið unga manneskju til þess að gegna embætti forsætisráðherra og lifa með því.
Nýverið hlaut Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands mikla gagnrýni vegna myndskeiða sem láku af henni á djamminu, og gleðskap með vinum sínum í ráðherrabústaðnum þar sem hún býr.
Fjöldi fólks hefur komið Marin, sem er 36 ára, til varnar og sagt hana hafa fullan rétt til að skemmta sér í frítíma sínum.
„Finnland kaus unga manneskju í þetta embætti. Þjóðin þarf að átta sig á því að stjórnmálapersónur þurfa ekki að eldast um 30 ár við það eitt að gegna stöðu í stjórnmálum,“ segir Lenya í samtali við mbl.is.
Kveðst hún ekki geta varist þeirri hugsun að kynferði spili inn í máli Sönnu. „Til að að nefna dæmi þá komst upp um Boris Johnsson að halda partý í Covid en það kom aldrei upp sú krafa að hann tæki fíkniefnapróf.“
Spurð hvort hún telji að gagnrýni sem þessi myndi koma upp hér á landi telur hún svo ekki vera.
„Nei, ég held að við séum komin lengra en þetta. Við erum ekki fullkomin þegar kemur að því [að mismunandi reglur gildi meðal karla og kvenna í stjórnmálum] en ég held samt við séum komin lengra en það að gagnrýna ráðherra sem fer að skemmta sér í frítímanum sínum.“
Hvort hún hafi orðið vör við að haldið aftur af sér í skemmtanalífi, meðvitað eða ómeðvitað, eftir að hún byrjaði í stjórnmálum segir hún að þegar maður verði opinber stjórnmálapersóna breytist reglurnar vissulega. „Maður þarf að passa sig hvenær maður talar fyrir hönd flokksins, til dæmis, og hvenær þú ert bara þú sjálfur.
„Á djamminu er maður auðvitað í kring um mikið af fólki, fólk veit hver þú ert og er að fylgjast með þér. Þannig auðvitað þarf maður aðeins að passa sig.
En ég hef samt ekkert eitthvað minnkað djammið síðan ég byrjaði í stjórnmálum, ef ég á að vera hreinskilin. Ég var lýðræðislega kjörin varaþingmaður þrátt fyrir ungan aldur, þannig fólk hlýtur að skilja að skemmtun fylgir því líka“