Láta líða yfir sig að gamni

Hópur nemenda sem stundaði þessa iðju var leystur upp.
Hópur nemenda sem stundaði þessa iðju var leystur upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skólastjórnendur Grunnskóla Seltjarnarness urðu í gær þess áskynja að nemendur gerðu sér að leik að þrengja að öndunarvegi og láta líða yfir sig, taka það upp og birta afraksturinn á miðlum á borð við TikTok.

Hópur nemenda sem stundaði þessa iðju var leystur upp í hádegishléi í skólanum. 

„Við urðum vör við að þetta hafi verið í gangi í dag og sendum bara beint póst á foreldra,“ sagði Helga Kristín Gunnarsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, í samtali við mbl.is í gærkvöldi.

„Ég held að þetta sé útbreitt,“ segir hún og bætir við að þótt þessi iðja komi reglulega upp sé hún ekki minna hættuleg.

Foreldrar barna í unglingadeild hafa verið beðnir að ræða við …
Foreldrar barna í unglingadeild hafa verið beðnir að ræða við börn sín. mbl.is/Hari

Foreldrar hvattir til að ræða við börn sín

Skólastjórnendur ræddu við alla 8. bekki skólans á dögunum en komust síðar að því að þetta væri útbreiddara en þeir héldu.

„Það er mikilvægt að ræða við börnin um þá hættu sem getur fylgt þessu,“ segir í tölvupósti til foreldra og aðstandenda. Þá hafi einnig borið á því að börn klípi í barkakýlið á öðrum.

„Þetta er mjög sársaukafullt og myndar sár á hálsi. Það er því gott að kíkja eftir því hvort einhverjir eru með slík ummerki á hálsinum og ræða það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert