Strætó bs. tapaði tæpum 600 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Er þetta mesta tap félagsins frá upphafi, en á sama tíma í fyrra nam tapið 254 milljónum króna.
Fargjaldatekjur jukust um 12 prósent og rekstrargjöld jukust einnig um 12 prósent. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins.
Í viðtali við RÚV segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, að besta lausnin væri að rekstrarárið yrði fullfjármagnað af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, og umræður um það séu nú í gangi.
Ferðum verður ekki fækkað frekar og forðast verður að skerða þjónustuna. Þó kunna fargjöld að hækka. Ekki liggur fyrir ákvörðun um það en Jóhannes bendir á að vísitala neysluverðs hafi hækkað um allt að tíu prósent á þessu ári og hækkunin kynni þá að verða í samræmi við það, en ekki umfram almennar verðlagshækkanir.