Íslensku forsetahjónin og borgarstjóri tóku á móti forsetahjónum Lettlands, Litháens og Eistlands í Höfða í morgun í tilefni ef opinberri heimsókn þeirra til landsins.
Heimsóknin hófst í gær. Tilefnið er að rúmir þrír áratugir eru liðnir síðan ríkin tóku upp stjórnmálasamband að nýju, eða þann 26. ágúst 1991, eftir að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna á ný sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja eftir fall Sovétríkjanna.
Í hátíðarsamkomunni í Höfða í dag er þess minnst að sama dag árið 1991 var skrifað undir yfirlýsingar þar um stjórnmálasamband Íslands við Eistland, Lettland og Litháen.
Þau Egils Levits, forseti Lettlands, og Andra Levite, eiginkona hans, Gitanas Nausėda, forseti Litháens og Diana Nausėdienė, eiginkona hans, og Alar Karis, forseti Eistlands, og Sirje Karis, eiginkona hans, komu til landsins í gær. Í fylgdarliði forsetanna eru utanríkisráðherrar landanna þriggja, þeir Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands, og Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens.
Samhliða hinni opinberu heimsókn eru borgarstjórar Tallinn, Riga og Vilnius á Íslandi og taka þátt í hluta dagskrárinnar.