Tvö og hálft ár fyrir stunguárás við 203 Club

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Tveir tuttugu og þriggja ára karlmenn voru í gær fundnir sekir um stórfellda líkamsárás á annan mann á sama aldri fyrir utan skemmtistaðinn 203 Club við Austurstræti aðfaranótt 5. mars. Daniel Zambrana Aquilar fékk þyngri dóm, eða tvö og hálft ár, en samverkamaður hans í árásinni fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að árásin hafi verið alvarleg, tilefnislaus og ofsafengin og afleiðingarnar alvarlegar, en Daniel var meðal annars fundinn sekur um að hafa tekið upp áhald af götunni og beitt því á fórnarlambið. Áhaldið fannst ekki og var því ekki hægt að segja til um hvers konar vopn var að ræða, en höggin með því náðu í gegnum jakka fórnarlambsins og hlaut sá sem fyrir árásinni varð meðal annars samfall á lunga  sem flokkast sem lífshættulegur áverki.

Ákæruvaldið fór fram á að Daniel yrði fundinn sekur um tilraun til manndráps vegna árásarinnar, en dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að fyrir Daniel hafi vakað að ráða hinum bana. Vísar dómurinn þar meðal annars til staðsetningar stunguáverkanna á baki fórarlambsins. „Ekki sé unnt með vissu að slá því föstu að ákærða hlytu að hafa verið ljóst að bani kynni að hljótast af atlögunni og er hann því sýknaður af tilraun til manndráps,“ segir í dóminum.

Fyrir dómi kom fram að Daniel hafi verið inn á 203 Club og séð samverkamann sinn vera að rífast við tvo menn. Sagði hann annan þeirra hafa verið fórnarlambið. Hann hafi komið þar að og verið kýldur og í framhaldinu hafi verið sparkað í höfuð hans og hann misst meðvitund í stutta stund. Hefðu tvímenningarnir svo horfið og Daniel ekki fundið þá inn á skemmtistaðnum.

Sagðist Daniel fyrir dómi hafa séð tvímenningana fyrir utan staðinn þegar hann kom út og að fórnarlambið hafi verið ögrandi. Slagsmál hefðu í kjölfarið byrjað og gat hann lítið lýst til upm upphaf þess. Hann hafi tekið upp áhald af götunni og notað það gegn fórnarlambinu sem þegar hafi verið byrjað í slagsmálum við samverkamanninn.

Fórnarlambið sagði fyrir dómi að hann hefði verið á Club 203 ásamt nokkrum fleirum og einhver átök hafi byrjað. Hafi hann stoppað samverkamann Daniels og ýtt honum frá sér og sagt honum að hætta þessu. Hafi hann fallið í gólfið en svo reynt að kýla sig og þá hafi hann aftur ýtt samverkamanninum í burtu. Sagðist hann hafa séð félaga sinn í einhverjum átökum líka.

Síðar þegar hann hafi komið út hafi hann heyrt einhvern ávarpa sig „was this you?“ og í kjölfarið fengið högg. Hafi húfa sem hann var með endað fyrir andliti hans og því sá hann ekki það sem á eftir kom en að hann hafi fengið fjölda högga. Eftir árásina hafi hann sest niður og þá átt erfitt með að anda og fleira og í kjölfarið farið í sjúkrabíl og verið fluttur á slysadeild. Hafi hann ekki vitað af stungusárunum fyrr en við læknisskoðun.

Önnur vitni lýstu einnig því sem gerðist á skemmtistaðnum og fyrir utan hann, en niðurstaða dómsins er að svo virðist sem skýring árásinnar megi leita í þeim átökum sem áttu sér stað inn á skemmtistaðnum. Hins vegar breyti það ekki því að árásin hafi verið tilefnislaus. Þá er öllum rökum árásarmanns um neyðarvörn hafnað.

Sérstaklega er tekið fram að hlutur Daniels hafi verið mun alvarlegri en hlutur samverkamannsins og er þar vísað í áverka vegna áhaldsins. Telur dómurinn því tveggja og hálfs árs dóm hæfilegan yfir Daniel og þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm yfir samverkamanninum. Þá er Daniel jafnframt gert að greiða fórnarlambinu 1,5 milljón í miskabætur og hinum gert að greiða 400 þúsund. Þurfa tvímenningarnir jafnframt að greiða samtals tæplega tvær milljónir í lögmannskostnað fórnarlambsins og 2,8 milljónir og 1,6 milljónir í eigin málsvarnarkostnað.

Samhliða þessu máli var Daniel ákærður fyrir árás á annan mann í júlí í fyrra við skemmtistaðinn Prikið. Meðal annars að hafa gefið honum olnbogaskot í andlitið með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut tannbrot á tveimur framtönnum.  Jafnframt var Daniel ákærður fyrir að hafa hlaupið á brott frá lögreglu í október í fyrra eftir að lögreglan hafði afskipti af honum. Játaði Daniel þessi brot og var gert að greiða manninum 500 þúsund í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert