Viðbragðstíminn var „frábær“

Björgunarsveitin Suðurnes var aðeins átta mínútur á vettvang norður af smábátahöfninni í Reykjanesbæ eftir að útkall á hæsta viðbúnaðarstigi, F1, barst í morgun vegna vélarvana báts.

Haraldur Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar, segir viðbragðstímann frábæran. Hann nefnir að þegar um hæsta viðbúnaðarstig sé að ræða hendi menn nánast öllu frá sér og fari strax af stað í björgunarsveitarhúsið.

Ljósmynd/Haraldur Haraldsson

Það var lán í óláni, bætir hann við, að báturinn varð vélarvana skammt frá þeim stað þar sem bátur björgunarsveitarinnar er staðsettur, eða á Grófinni í Keflavík.  

„Þetta hefði ekki getað farið betur,“ segir Haraldur um björgunaraðgerðirnar.

Ljósmynd/Haraldur Haraldsson

Báturinn hafði verið á makrílveiðum þegar hann byrjaði að reka hratt að landi og endaði hann á að reka upp í klettana utan við höfnina í Keflavík.

Ljósmynd/Haraldur Haraldsson

Einn maður var um borð og slasaðist hann ekki og í fyrstu virtist ekki hafa komið leki að bátum, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. Björgunarbáturinn Njörður kom á vettvang stuttu seinna og kom taug í bátinn og dró hann til hafnar, þangað sem hann var kominn klukkan rétt rúmlega tíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka