Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, segir í samtali við mbl.is það vera jákvætt að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hafi verið formlega áminntur vegna ummæla hans og orðfæris í opinberri umræðu á samfélagsmiðlinum Facebook sem m.a. vörðuðu hælisleitendur og samkynhneigða karlmenn.
„Það er mjög jákvætt að áminna hann því þetta er alveg eitthvað sem á að áminna fyrir,“ segir Daníel en áminningin er veitt á þeim grundvelli að háttsemi vararíkissaksóknara utan starfs hans sem vararíkissaksóknari hafi verið ósæmileg og ósamrýmanleg starfi hans.
Ummælin lét Helgi Magnús falla vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem dómurinn dæmdi að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hefðu ranglega ekki tekið kynhneigð manns trúanlega.
Helgi skrifaði á Facebook: „Auðvitað ljúga þeir. Flestir koma í von um meiri pening og betra líf. Hver lýgur sér ekki til bjargar? Þar fyrir utan er einhver skortur á hommum á Íslandi?“
Í kjölfarið lagði stjórn samtakanna fram kæru á hendur Helga. Að mati samtakanna er um rógburð eða smánun að ræða og falla því ummælin undir lög um hatursorðræðu.
Daníel segir að kæran sé í hefðbundnu ferli og verði ekki dregin til baka þrátt fyrir áminninguna.
„Hún heldur áfram í sínu ferli óháð þessu,“ segir Daníel að lokum.
Helgi Magnús hefur hvorki svarað símtölum mbl.is í gær né í dag.