Erfitt að loka rótgrónum stað

Chandrika G. Gunnarsson, eigandi veitingastaðanna Hraðlestarinnar og Austur-Indíafjelagsins, kveður margt …
Chandrika G. Gunnarsson, eigandi veitingastaðanna Hraðlestarinnar og Austur-Indíafjelagsins, kveður margt hafa breyst í miðborginni og nú sé tímabært að kveðja Lækjargötuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur gengið afar vel hjá okkur og við höfum átt mjög góð tíu ár hér í Lækjargötu,“ segir Chandrika G. Gunnarsson, eigandi indverska veitingastaðarins rótgróna Hraðlestarinnar sem brátt fagnar 20 árum á Íslandi, en auk þess á Chandrika Austur-Indíafjelagið sem brátt verður 30 ára.

Eins og mbl.is greindi frá á þriðjudaginn lokaði Hraðlestin dyrum Lækjargötuútibúsins í fyrradag og rekur eftir það þrjá staði. Sagt var frá því á Facebook-síðu Hraðlestarinnar að kröfur viðskiptavina hefðu þróast og skylda staðarins væri að þróast með.

Kveður Chandrika áætlanir eiganda hússins um breytingar á því ekki þjóna hagsmunum veitingastaðarins og meðal annars þess vegna sé nú tímabært að yfirgefa Lækjargötuna. „Við munum halda áfram að þjóna okkar viðskiptavinum á staðnum á Hverfisgötunni en auðvitað er erfitt að loka rótgrónum stað,“ segir Chandrika, „eins og til dæmis þegar við lokuðum í Kringlunni. Þaðan var erfitt að fara, en það reyndist rétt ákvörðun fyrir okkur að færa okkur yfir á Grensásveg.“

Möguleikar skerðast ört

Hún segir mikilvægt að leggja alla áherslu á að geta þjónað viðskiptavinum svo vel sé, sama hvað. Kjark þurfi til að taka ákvarðanir sem feli í sér breytingar, en þær séu nauðsynlegar til að bregðast við breyttu landslagi á markaðnum, svo sem bröttum hækkunum hráefnis-, launa- og annars kostnaðar á þessum síðustu.

Hraðlestin hefur síðasta áratuginn haldið til í hinu fornfræga húsi …
Hraðlestin hefur síðasta áratuginn haldið til í hinu fornfræga húsi Lækjargötu 8 sem byggt var árið 1871 sem aðsetur landlæknis. Ljósmynd/Facebook-síða Hraðlestarinnar

„Margir viðskiptavinir vilja taka matinn okkar með sér heim, sérstaklega eftir covid, og aðgengi til slíks breytist um þessar mundir ört hér í miðbænum,“ segir hún frá og vísar til þess að möguleikar á að aka upp að staðnum, stökkva inn og aka á brott skerðist ört. Framkvæmdir á lóðum í nágrenninu hafi haft þau áhrif að margir viðskiptavinir kjósi frekar að sækja matinn sinn frá öðrum útibúum Hraðlestarinnar. Því hafi sú ákvörðun verið tekin að gera upp veitingahúsið á Hverfisgötu, þar sem aðgengið er jafnan talið betra.

„Staðið af okkur ýmsar breytingar“

„Ímynd Reykvíkinga á miðborginni hefur breyst á síðustu árum. Aðgengi bíla er ekki eins og það var og þótt það henti kannski öðrum fyrirtækjum betur þá hentar það Hraðlestinni ekki eins vel.  Í kjallara ráðhússins er til dæmis nóg af bílastæðum og bílastæðahús eru komin um alla miðborg,“ segir Chandrika, „en okkar viðskiptavinir virðast síður vilja nota þau þegar þeir eru að skjótast til að sækja sér mat,“ heldur hún áfram og segir staðinn á Hverfisgötu henta betur fyrir dæmigerða heimsókn enn sem komið er.

Þróunin sé hröð og umhverfið breytist mjög hratt, rekstraraðilar veitingastaða og annarra staða sem fólk heimsækir í verslunarerindum þurfi að vera á tánum og tilbúnir að sníða sér stakk eftir nýjum vexti fyrirvaralítið.

„Við höfum staðið af okkur ýmsar breytingar síðustu árin, til dæmis vegna framkvæmda í nágrenninu og samkomutakmarkana, þökk sé okkar viðskiptavinum. Núna standa þessar breytingar á húsinu fyrir dyrum og við teljum þetta rétta tímasetningu til að flytja og auka umsvif Hverfisgötuútibúsins. Við eigum okkur yndislegan og mjög tryggan viðskiptavinahóp og það verður gaman að fá að þjóna honum áfram,“ segir Chandrika G. Gunnarsson, eigandi Hraðlestarinnar, sem gaf sér tíma í stutt spjall í miðjum flutningum út úr hinu fornfræga húsi Lækjargötu 8 sem byggt var árið 1871 sem aðsetur landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert