Stjórn Félags fornleifafræðinga hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsir yfir miklum vonbrigðum yfir því hvernig staðið var að skipun nýs þjóðminjavarðar.
Greint var frá því í gær að Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra hafi skipað Hörpu Þórsdóttur til að gegna embætti þjóðminjavarðar.
Stjórn félagsins telur að ráðningaferlið hafi verið „óvandað, ógegnsætt og metnaðarlaust“.
Í yfirlýsingu stjórnarinnar er tekið fram að gagnrýnin snýr ekki að Hörpu sem slíkri, heldur því að staða þjóðminjavarðar hafi ekki verið auglýst til umsóknar.
„Stjórn Félags fornleifafræðinga þykir sárt að ekki var betur staðið að ráðningu þjóðminjavarðar. Að okkar mati á íslensk menning betra skilið en að vera gert að embættismannaleik“.