Olga Lísa Garðarsdóttir, skólastjóri Fjölbrautaskólans á Suðurlandi, viðurkennir í samtali við mbl.is að hún hefði betur sleppt því að skrifa „saklaus uns sekt er sönnuð“ í tölvupóst þann sem hún sendi á nemendur og aðstandendur í kjölfar þess sem meint kynferðisofbeldisbrot kom upp innan veggja skólans.
„Þetta fór öfugt ofan í fólk. Aðalatriðið var samt það að ég óttast að dómstóll götunnar taki völdin. Auðvitað fordæmum við allt ofbeldi en lögreglan er með málið á sínu borði og það er bæði þolanda og geranda þungbært þegar málið er komið í svona opinbera umræðu. Þetta eru óhörðnuð ungmenni. “
Mikilvægt er að koma í veg fyrir að af einu ofbeldisbroti spretti annað, að mati Olgu. „Meiningin mín er skýr, við fordæmum ofbeldi og hörmum að þetta hafi komið upp. Við stöndum með þolendum en ég hef áhyggjur af viðbrögðum samfélagsins gagnvart geranda, sem er líka ungmenni.“
Olga segir skólann ekki geta rekið nemanda án þess að hafa óyggjandi sannanir fyrir brotum hans. „Við berum ábyrgð á fræðsluskyldu ungmenna til 18 ára. Meintur gerandi fékk ekki að mæta í skólann í þessari viku en verður heimilt að mæta eftir helgi.“
Spurð hvort hún telji líkur á að viðkomandi treysti sér til að mæta þá, segist hún frekar eiga von á því en ekki.
„Þau eru bæði nemendur í skólanum og við erum búin að vera í samskiptum við heimilin. Skólastarf FSU fer fram í þremur húsum og við erum að endurskoða hvernig stundatöflunum þeirra er stillt upp þannig að þau verði ekki saman í tímum.“
Nemendafélag FSU sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem tölvupóstur skólameistara var gagnrýndur, bæði vegna innihalds og orðalags.
Olga mun funda með nemendafélaginu eftir helgi. „Ég hef verið í samskiptum við formanninn og við erum að vinna saman. Nemendafélagið stendur nær nemendum en við stjórnendur, þannig að við þurfum að hlusta á þeirra skoðanir áður en við tökum afgerandi ákvarðanir.“
Þá bætir Olga við að það sé vont ef nemendur upplifa sig ekki örugga innan veggja skólans, og reynt verði að finna lausnir svo skólastarf geti halfið áfram.
„Í stað þess að einhver veitist að honum [meintum geranda] viljum við lægja öldur, en ekki viðhalda átökum milli fólks. Við viljum tryggja að þetta gerist ekki aftur en líka gera fólki grein fyrir því að ofbeldi leysir aldrei vandann,“ segir Olga.
Spurð hvort hún óttist ekki að sú nálgun kunni að vera skilin sem gerendameðvirkni, segir hún að meðvirkni sé yfirleitt ekki af hinu góða og mikilvægt sé að taka á málum þannig að hegðunin haldi ekki áfram. Aftur á móti sé engin lausn fólgin í útskúfun.
Olga Lísa telur að svokölluð slaufunarmenning, eða útskúfunartilhneyfing í kjölfar kynferðisbrota, hafi gengið of langt í íslensku samfélagi.
„Við verðum að fræða einstaklinga og hjálpa þeim að ná tökum á sínu lífi. Við erum að taka fólk af lífi á samfélagsmiðlum, en hvað eigum við svo að gera við þessa útskúfuðu einstaklinga?“
Horfa þarf heildstætt á vandann, að mati Olgu. „Það er ábyrgð sem fylgir því að útskúfa fólk. Ef viðkomandi hefur brotið á sér þá verður hann að fá tækifæri til að koma til baka. Við erum eitt samfélag og við getum ekki bara útilokað fólk.“
„Þetta er þjóðarverkefni, að leggja niður þessa heift til að finna niðurstöðu sem hægt er að fallast á.“