Sá sem var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Úlfarsfelli í hádeginu er hjólreiðamaður sem hafði slasast í hjólreiðakeppni.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Gæslunnar, var ekki talið skynsamlegt að flytja hann landleiðina vegna áverkanna sem hann hlaut og því var óskað eftir aðstoð þyrlunnar.
Þyrlusveitin var á Reykjavíkurflugvelli þar sem hún var nýkomin úr flugi og gat því brugðist skjótt við. Hún var komin á vettvang örfáum mínútum síðar og var lent með hjólreiðamanninn á Landspítalanum um klukkan 12.50.
Ekki hafa fengist frekari upplýsingar um áverka hans.