Fólk á flótta frekar fórnarlömb launaþjófnaðar

Katrín ávarpaði fundinn í gær.
Katrín ávarpaði fundinn í gær. mbl.is/Hákon

Flokksráð Vinstri grænna telur að bregðast þurfi við því að flóttafólk sem kemur til landsins og sækist eftir vinnu sé í mjög viðkvæmri stöðu. Því sé hætta á því að það verði fórnarlömb félagslegra undirboða og launaþjófnaðar.

Þetta kom fram á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs sem var haldinn núna um helgina á Ísafirði. Á fundinum voru samþykktar fimm ályktanir.

Frá flokksráðsfundi hreyfingarinnar.
Frá flokksráðsfundi hreyfingarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Greint var frá því í vikunni að grunur léki á stórfelldum launaþjófnaði á veitingastöðunum Flame og Bambus. Þrír starfsmenn veitingastaðanna þáðu aðstoð við að kom­ast úr aðstæðum og fluttu í íbúð á veg­um Fag­fé­lag­anna. Starfs­menn­irn­ir voru áður í íbúð á veg­um vinnu­veit­enda.

Telur flokksráð Vinstri grænna brýna þörf á endurskoðun laga um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda og laga um starfsmannaleigur. Þá þurfi að ljúka afgreiðslu frumvarps til nýrra heildarlaga um starfskjör launafólks í þessu tilliti. 

Vilja lengja fæðingarorlofið

Flokksráð skorar einnig á ríki og sveitarfélög að taka höndum saman og efla fyrsta menntastig barna, meðal annars með því að bæta kjör og starfsaðstæður leikskólakennara svo að leikskólakennarastarfið verði eftirsóttara en raun ber vitni.

Leikskólavandinn í Reykjavík hefur mikið verið í umræðunni síðustu vikur.

Jafnframt telur ráðið að lengja eigi fæðingarorlofið enn frekar og koma upp fjölskyldumiðstöðvum að erlendri fyrirmynd þar sem foreldrar ungra barna geti sótt fræðslu og komið saman með ung börn sín meðan á fæðingarorlofi stendur.

Ekki fleiri vindorkuver

Þá ítrekar flokksráð í ályktun sinni um vindorku þá afstöðu Vinstri grænna að ekki verði ráðist í uppbyggingu vindorkuvera, annarra en þeirra tveggja sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, fyrr en stefna um uppbyggingu vindorku liggur fyrir sem og almennur og skýr lagarammi um gjaldtöku af vindorkuverum.

Fundurinn lýsti einnig yfir stuðningi við baráttu launafólks. Kom fram að gæta þyrfti þess að laun stjórnenda ríkisstofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins hækki ekki upp úr öllu valdi úr takti við almenna launaþróun í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert