„Ég skrifaði fyrst ferðabók um Ísland árið 2007, þegar ég var nýflutt til landsins,“ segir Satu Rämö, finnskur ferðabóka- og nú upp á síðkastið glæpasagnahöfundur, sem búsett er á Ísafirði ásamt Björgvin Hilmarssyni, fjallaleiðsögumanni og ljósmyndara.
Satu venti kvæði sínu rækilega í kross eftir 20 bækur um Ísland fyrir ferðaþyrsta Finna og kom fyrsta bók hennar í þríleik um ísfirsku rannsóknarlögreglukonuna Hildi út í Finnlandi í júní og hefur náð þar metsölu, 50.000 eintökum í prent-, raf- og hljóðbók samanlagt. Þá hafa forlög í þremur löndum þegar keypt þýðingarréttindi að öllum þremur bókunum. Örlítið meira af ferðabókmenntunum þó áður en lengra er haldið.
„Ég sá að það voru engar góðar ferðabækur um Ísland til á finnsku,“ segir Satu, um þetta leyti hafi Icelandair nýhafið beint flug til Helsinki og leiðin því mun greiðari fyrir Finna að koma hingað. Fyrsta ferðabókin náði vinsældum meðal Finna, þar sagði Satu af íslenskri náttúru, hestum, hvað ferðamenn gætu helst tekið sér fyrir hendur á landinu og fleira.
„Við ferðuðumst 40.000 kílómetra þegar við vorum að skrifa þessa bók. Þarna var Instagram ekki komið og engar rafrænar ferðabækur á netinu,“ segir Satu sem skrifaði fjölda bóka í kjölfarið, þar á meðal um þá upplifun að vera útlendingur á Íslandi, hvað Íslendingar og Finnar eigi sameiginlegt, hvernig sé að ala upp börn á Íslandi, álfar og huldufólk í þjóðsögum og meira að segja hvernig það sé að flytja úr höfuðstaðnum í lítinn bæ á landsbyggðinni, en þau Björgvin fluttu til Ísafjarðar fyrir þremur árum.
„Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að skrifa langa texta, segja mikið, þróa hugmyndir. Það er mjög gefandi að vera rithöfundur,“ segir Satu sem einnig starfar þó við textagerð fyrir auglýsingar auk þess að vera svokallaður áhrifavaldur á Instagram („ég hata þetta orð,“ segir Satu glettnislega um áhrifastöðu sína).
Þar kom að henni þótti nóg skrifað um Ísland fyrir ferðaþyrsta landa hennar. Í raun var hún búin að skrifa allt sem hægt var að skrifa um Ísland frá sjónarhóli ferðamennsku, 20 bækur. „Þá hugsaði ég með mér að nóg væri komið og tók mér pásu. Og þá kom covid,“ rifjar Satu upp. Hún notaði einangrunartíma veirunnar til að hugleiða næstu skref í lífi sínu.
Satu er mikil áhugamanneskja um glæpasögur, drekkur þær bókstaflega í sig. „Ég hef lesið allar bækur Arnaldar Indriðasonar, þær voru ein leið fyrir mig til að kynnast íslensku samfélagi. Glæpasögur eru svo miklu meira en að einhver dó og svo er verið að reyna að finna út hver drap hann eða hana. Þær endurspegla líka samfélagið og samtímann,“ segir Satu.
„Af hverju er ég ekki sjálf að skrifa glæpasögur?“ var spurning sem íhugun faraldurstímans gat af sér. Henni var þó ekki auðsvarað. „Ég var svo hrædd við að byrja af því að ég hafði aldrei skrifað skáldsögu. Þetta er svo allt öðruvísi en að skrifa ferðabækur. Í skáldsögunni byrjarðu með ekki neitt. Þú þarft að búa til heiminn og svo skrifa um heiminn. Í ferðabókunum var heimurinn á sínum stað og þú þurftir bara að segja frá honum,“ útskýrir rithöfundurinn.
Útgefandi hennar í Finnlandi tók fregnum af væntanlegri glæpasögu hins vegar sem hreinni himnasendingu og sagðist einmitt hafa verið að velta því fyrir sér hvenær hún hygðist byrja að skrifa skáldsögur. „Við gerðum strax samning um þrjár bækur,“ segir Satu en finnska forlagið er WSOY (Werner Söderström OY) sem nú er dótturfyrirtæki sænska útgefandans Bonnier Books.
Sögusvið þríleiks Satu er Vestfirðir, þó einkum Ísafjörður, og aðalsöguhetjan rannsóknarlögreglukonan Hildur sem ber með sér þunga bagga fortíðar eftir að tvær barnungar systur hennar hurfu sporlaust í Vestfjarðagöngunum árið 1994. „Mér finnst svo hræðilegt að keyra þessi göng í myrkri og þrengslum svo ég fór að sjá fyrir mér hvers konar hryllingsatburðir gætu gerst í þeim,“ segir Satu af þessum innblæstri sínum sem vonandi gleður yfirvöld samgöngumála á Íslandi.
„Í þessum þríleik er persónuleg saga Hildar í bakgrunninum og þessi harmleikur svífur alltaf yfir vötnum en svo er hver bók náttúrulega sjálfstæð saga. Ísafjörður er miðpunkturinn og svæðið þar í kring, ég nota aðeins raunveruleg staðarnöfn og örnefni,“ segir Satu og nefnir í framhaldinu áskorun við skrifin.
„Ég er útlendingur sem býr á Íslandi og er að skrifa íslenska glæpasögu á finnsku. Ég fann strax að ég þyrfti eina finnska persónu í söguna til að tengja Finnland við bókina af því að ég er finnsk. Þá komst ég á snoðir um að lögregluskólar á Norðurlöndunum hafa með sér samstarf um skiptinám sem heitir Nordcop. Það þýðir að lögreglunemi í til dæmis Finnlandi getur farið til Óslóar eða Svíþjóðar eða hingað til Íslands í starfsnám,“ segir Satu frá.
Þar með hafi finnski lögregluneminn Jakob komið til sögunnar en hann fer í bókum Satu í starfsnám til Ísafjarðar og verður samstarfsmaður Hildar. Þau samstarfsfólkið eru ákaflega heilnæm að sögn Satu. Hildur er algjörlega háð því að stunda líkamsrækt og æfir öllum stundum auk þess að sigla bretti um vestfirskt brim, en Jakob er mikill áhugamaður um hannyrðir og liggur í prjónaskap. Annað en þekktar höfuðpersónur bóka sumra norskra höfunda sem eru fyllibyttur og spilafíklar upp fyrir haus.
„Jakob elskar að prjóna lopapeysur eins og allir Finnar akkúrat núna, það er bara lopapeysuæði í Finnlandi,“ segir Satu hlæjandi og bætir því við að lopi sé víða uppseldur í landinu vegna þessa mikla áhuga. Spurning hvort gas-níska Rússa eigi þar hlut að máli.
Án þess að ljóstra upp of miklu um söguþráð fyrstu bókarinnar fellur snjóflóð og í kjölfarið taka líkin að hrannast upp. Sem fyrr segir kom bókin út í Finnlandi í júní og náði þegar metsölu. Satu hefur þegar lokið við næstu bók þríleiksins, sem heitir Rósa og Björk og kemur út í mars á næsta ári, en fyrsta bókin heitir einfaldlega Hildur.
Satu kveðst leggja áherslu á að söguþræðir bókanna séu raunverulegir og snúist um atburði sem geti gerst og hafi gerst á Íslandi. „Ég kem ekki nálægt neinum vísindaskáldskap eða hryðjuverkaárásum, mitt sögusvið er litla samfélagið úti á landi þar sem einhver deyr og það er rannsakað,“ segir hún.
Satu naut aðstoðar lögreglunnar á Vestfjörðum við að fá innsýn í aðferðafræði hennar og vinnubrögð við rannsókn sakamála og lætur vel af, enda samfélagið lítið og börn Satu og lögreglukonu einnar á Ísafirði saman í bekk. „Hér eru ekki margir lögreglumenn og þeir hafa ekki endilega allt sem þarf til að framkvæma flóknar sakamálarannsóknir. Þá kemur auðvitað fólk frá Reykjavík til aðstoðar,“ segir Satu sem kveðst hafa lagt fjölda spurninga fyrir staðarlögregluna sem hafi gert henni kleift að skapa raunverulegri heim í skrifum sínum.
Áður en fyrsta bókin kom út í sumar var útgefandi Satu í Finnlandi þegar búinn að selja þýðingarréttinn að öllum þremur bókunum til Þýskalands og nú er svo komið að danskt forlag hefur einnig keypt allar þrjár og annað í Eistlandi. Þýðingavinnan er oft í kringum eitt ár svo reikna má með að fyrsta bókin komi út í þessum löndum á næsta ári en eins og fyrr segir hefur bókin átt greiða leið að finnskum lesendum, varð metsölubók nánast strax eftir útgáfu.
„Ég átti ekki orð þegar ég sá þessar sölutölur, ég bjóst satt að segja aldrei við því að þetta færi svona rosalega af stað,“ játar Satu sem hefur marga fjöruna sopið við útgáfu bóka en aldrei upplifað neitt þessu líkt. Þá hafi ísfirska glæpasagan hlotið einróma lof finnskra gagnrýnenda, þar á meðal í stærsta dagblaði landsins, Helsingin Sanomat. „Þeir skrifuðu nú aldrei orð um ferðabækurnar mínar en ætli ég fyrirgefi þeim þá ekki núna,“ segir Satu kímin.
En hvernig skyldu vinnubrögð upprennandi glæpasagnadrottningar Finna lýsa sér?
„Þegar önnur bókin er farin í prentun í janúar ætla ég strax að byrja á þeirri þriðju. Ég veit hvað gerist í henni og ég mun reyna að klára hana fyrir næsta sumar þannig að hún komi út í október, þá er alltaf stór bókamessa í Finnlandi og svo er það auðvitað jólabókaflóðið,“ segir Satu. Sú árvissa skriða er því greinilega ekki séríslensk.
„Mér finnst erfiðast að byrja þegar svona stór verkefni eru annars vegar, en þegar ég er komin í gang flýgur þetta áfram. Ég hef þá reglu að taka engar pásur og byrja á næstu bók um leið og sú síðasta er farin í prentun. Ég skrifa svona tvo til þrjá tíma á dag og er þá búin að gera grófa áætlun fyrir alla bókina, hvað gerist í hverjum kafla. Það getur verið bara ein setning,“ útskýrir Satu.
Hún segir gott skipulag frá byrjun hafa mikið að segja, það auðveldi mjög sjálfa vinnuna við skrifin og tveir til þrír tímar á dag séu hámark þess sem hún ræður við svo textinn skili sér í mestu gæðum. „Annars fer þetta bara út í eitthvert bull,“ segir hún og hlær. Satu setur sér skýr tímamörk en er auk þess með tímamörk frá útgefanda sínum sem ákveðin eru í góðu samráði.
„Ef maður vinnur þetta svona verður þetta ekkert stress, ég þarf líka að gera ráð fyrir því að ég geti fengið flensu eða lent í öðrum töfum. Maður þarf bara að púsla þessu saman og láta þetta virka, þá er þetta allt í fína,“ segir finnski glæpasagnahöfundurinn Satu Rämö að lokum, búin að koma Ísafirði rækilega á kortið í Finnlandi.