„Kraftur í grænlensku samfélagi“

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra flutti erindi á fleiri en einni …
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra flutti erindi á fleiri en einni málstofu. Ljósmynd/Aðsend

„Það er kraftur í grænlensku landsstjórninni og það er kraftur í grænlensku samfélagi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra, sem er staddur í Nuuk um þessar mundir á Grænlandsþingi Hringborðs Norðurslóða (e. Arctic circle). 

Er þetta í annað skipti sem viðburður á vegum Hringborðs norðurslóða fer fram í Grænlandi, en í ár sækja þingið fleiri en 400 fulltrúar frá 25 ríkjum og er þingið þar með stærsti alþjóðlegi viðburðurinn í sögu Grænlands. 

Guðlaugur Þór flutti ræðu á upphafsdegi ráðstefnunnar auk þess sem hann var frummælandi í málstofu um samskipti Íslands og Grænlands, og í málstofu um þriðja pólinn í Himalayafjöllum. 

„Það er enginn vafi á því að Hringborðið ber höfuð og herðar aðra vettvanga þegar kemur að málefnum norðurslóða. Að fá að vera þátttakandi í þessu er heiður.“

Guðlaugur ræðir við Ólaf Ragnar Grímsson, stjórnarformann Hringborðs norðurslóða.
Guðlaugur ræðir við Ólaf Ragnar Grímsson, stjórnarformann Hringborðs norðurslóða. Ljósmynd/Aðsend

Koma auga á tækifæri þrátt fyrir ógnina

Sem utanríkisráðherra lagði Guðlaugur Þór áherslu á að auka samstarf Íslands og Grænlands. Það gleður hann að sjá þá miklu uppbyggingu sem er að eiga sér stað þar í landi. 

„Breytingarnar á Nuuk eru umtalsverðar. Hér hefur verið mikil uppbygging, verið er að byggja nýjan flugvöll og svo hefur risið mikið af glæsilegu húsnæði á undanförnum árum, það sér ekki fyrir endann á því.“

Hann bendir á að Grænland sé að verða sífellt stærri þátttakandi í alþjóðasamfélaginu. Yfir þeim vofi ógnir vegna loftslagsbreytinga en á sama tíma séu þeir að koma auga á ýmis tækifæri. 

Þá tekur hann eftir einstakri velvild Grænlendinga í garð Íslendinga, sem sé gott að finna. „Skoðanakannanir sem gerðar voru í kjölfar Grænlandsskýrslunnar sýna að 90 prósent Grænlendinga vilja aukin samskipti við Íslendinga.“

Umhverfisráðherra Íslands ásamt umhverfisráðherra Grænlands.
Umhverfisráðherra Íslands ásamt umhverfisráðherra Grænlands. Ljósmynd/Aðsend

Vonar að flestir átti sig á mikilvægi norðurslóða

Þá gleður Guðlaug að sjá svo marga fulltrúa frá öllum heimshornum. 

„Ég vona að flestir séu búnir að átta sig á mikilvægi norðurslóða, ekki bara fyrir okkur norðlægu þjóðirnar, heldur líka fyrir allan heiminn.“

Íshellan á Grænlandi er önnur stærsta íshella heimsins á eftir Suðurskautinu. Það þarf ekki nema fjórðungur af Grænlandsjökli að bráðna til þess að sjávarborð um heim allan hækki um tvo metra.

Ráðherrar frá sameinuðu furstadæmunum voru meðal þeirra sem ávörpuðu þingið. Guðlaugur segir þá hafa metnaðarfull markmið þegar komi að loftslagsbreytingum. „Þeir eru að framleiða græna orku og fjárfesta í þeim tækifærum víðsvegar um heiminn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert