Hjólreiðakappinn sem var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Úlfarsfelli í hádeginu í gær er sautján ára gamall.
Slasaðist hann í hjólreiðakeppni í fjallabruni sem var á vegum Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Ekki var talið skynsamlegt að flytja hann landleiðina vegna áverkanna sem hann hlaut og því var óskað eftir aðstoð þyrlunnar.
„Honum hlekktist á þarna og dettur í brautinni,“ segir Björgvin Tómasson, meðstjórnandi Hjólreiðasambands Íslands, í samtali við mbl.is. Björgvin sá ekki þegar slysið varð en var á staðnum þar sem hann var dómari á mótinu.
Björgvin segir piltinn hafa hlotið áverka á baki. Ekki er vitað um líðan hans en heyrði Björgvin af því að hann hafi átt að fara í aðgerð í nótt.
Að hans sögn er hjólreiðakappinn mjög góður í sinni íþrótt og harmar Björgvin slysið.
„Hugur allra brautarvarða, björgunaraðila og hjólasamfélagsins er hjá stráknum og fjölskyldu hans,“ segir Björgvin.
Keppendum og öðrum viðstöddum var boðin sálræn aðstoð frá Rauða krossinum.