Sara Martí Guðmundsdóttir, nýr leikhússtjóri Tjarnarbíós, lýsir þeim vanda að húsið anni ekki eftirspurn þeirra sem vilja setja upp sýningu á sviði hússins.
Sjálfstæðir atvinnuleikhópar sækja á ári hverju um styrki hjá Sviðslistasjóði og sækja síðan um afnot af sviði og þar með þeim búnaði sem leikhúsin bjóða upp á. Tjarnarbíó, sem hefur oft verið kallað heimili sjálfstæðu leikhópanna, tekur við langflestum af þessum sýningum sjálfstæðu leikhópanna.
En það komast mun færri að en vilja. Nú eru mjög fá svið eftir í borginni sem hægt er að nýta undir svona sýningar og því margir sem vilja komast að í Tjarnarbíói.
„Auðvitað reynum við að koma sem flestum að en það er þannig núna að það hefur aldrei verið meiri aðsókn og við erum að lenda í að þurfa að vísa frá hópum sem eru fullstyrktir í fyrsta sinn,“ segir Sara Martí.
En það eru ekki bara leikhóparnir sem eru í vandræðum með að finna húsnæði.
„Ég vissi svo sem að ég væri að taka við leikhúsi sem væri í þessari stöðu akkúrat núna. En mér finnst mjög áhugavert að ég er búin að fá mjög mikið af símtölum frá tónlistarfólki sem vantar svið í Reykjavík. Þannig það er greinilega þörf á fleiri sviðum.“
„Við erum klárlega komin á þann stað að það þarf nýtt svið. Og við erum með hugmyndir um hvernig er hægt að gera það. Bara stækka Tjarnarbíó. Við höfum alla burði til þess.“
Hún útskýrir að Reykjavíkurborg, sem á Tjarnarbíó, eigi líka húsnæðið sem liggur við hliðina á Tjarnarbíói.
„Það er risastórt port í bakgarðinum hjá okkur sem við myndum gjarnan vilja frá yfirbyggingu yfir til þess að búa til nýtt svið. Og ætlum að fara að fá stjórnvöld með okkur í lið til þess að láta þetta rætast.“
Sara Martí var gestur Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum. Þar sagði hún frá þeim áskorunum sem sjálfstæða leikhússenan stendur frammi fyrir auk þess sem hún ræddi sýn sína fyrir húsið, komandi leikár og þær endurbætur sem hún hefur ráðist í.