„Ég veit að þetta er gríðarlega mikilvægt og ég mun leggja mig alla fram um að vinna með öllum,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir í samtali við mbl.is.
Heiða Björg verður næsti formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, en hún sigraði í formannskjöri í dag.
Mun hún taka við embætti af Aldísi Hafsteinsdóttur, núverandi formanni, á landsþingi í lok september. Fram að því segist Heiða ætla að nýta tímann vel til undirbúnings.
„Ég er auðmjúk og þakklát fyrir að vera treyst fyrir þessu hlutverki og spennt að takast á við það.“
Spurð um helstu áherslumál nefnir Heiða Björg stöðu sveitarfélaga og að efla sambandið sjálft.
„Við þurfum að tryggja tekjustofna sveitarfélaganna og grundvöll þeirra. En svo þarf líka að efla sambandið sem okkar samstarfs- og samtalsvettvang. Það er margt öflugt fólk þar og við getum eflaust unnið miklu þéttar og betur saman og ég hlakka til þess,“ segir hún.
„Ég er búin að heyra í mjög mörgum síðustu vikur og margar hugmyndir og mikil gerjun um allt land.“
Á landsþingi í september mun sveitarstjórnarfólk koma saman og setja stefnu fyrir sambandið til næstu fjögurra ára.
„Ég held að það verði alltaf áherslubreytingar eftir hverjar kosningar og nú kemur frekar ný stjórn inn, það eru mikil skipti þar, þannig að ég get alveg trúað því að sambandið muni aðeins skipta um gír á þessu kjörtímabili. En þar er margt mjög vel gert og margt gott fólk sem starfar þar.“
Heiða Björg var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar í febrúar 2017. Hún hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkur í níu ár og verið varaformaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga síðustu fjögur ár.