Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefur hvorki svarað símtölum né skriflegum fyrirspurnum mbl.is vegna formlegrar áminningar sem hann fékk fyrir ummæli sem hann lét falla á Facebook og vörðuðu bæði hælisleitendur og samkynhneigða karlmenn.
Ummælin vöktu upp mikla reiði og lögðu Samtökin '78 m.a. fram kæru vegna þeirra. Þá staðfesti Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari við mbl.is í síðustu viku að Helgi Magnús hefði verið formlega áminntur vegna ummælanna.
Ummælin lét Helgi Magnús falla vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem niðurstaðan varð sú að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hefðu ranglega ekki tekið stefnanda trúanlegan þegar hann sagði frá kynhneigð sinni.
Helgi skrifaði á Facebook: „Auðvitað ljúga þeir. Flestir koma í von um meiri pening og betra líf. Hver lýgur sér ekki til bjargar? Þar fyrir utan er einhver skortur á hommum á Íslandi?“
Áminningin var veitt á þeim grundvelli að háttsemi vararíkissaksóknara utan starfs hans sem vararíkissaksóknari hefði verið ósæmileg og ósamrýmanleg starfi hans. Háttsemin hefði varpað rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt, sbr. 14. og 21. gr. laga nr. 70/1996, auk þess sem tjáning hans hefði grafið undan virðingu og trausti til embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins almennt.
Blaðamenn mbl.is og Morgunblaðsins hafa margsinnis gert tilraunir til að ná í Helga Magnús í kjölfar frétta um áminninguna en hann hefur hvorki svarað í síma né skriflegum fyrirspurnum.