Engin svör frá Helga Magnúsi

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefur fengið formlega áminningu vegna ummæla …
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefur fengið formlega áminningu vegna ummæla sem hann lét falla á Facebook. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefur hvorki svarað símtölum né skriflegum fyrirspurnum mbl.is vegna formlegrar áminningar sem hann fékk fyrir ummæli sem hann lét falla á Facebook og vörðuðu bæði hælisleitendur og samkynhneigða karlmenn.

Ummælin vöktu upp mikla reiði og lögðu Samtökin '78 m.a. fram kæru vegna þeirra. Þá staðfesti Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari við mbl.is í síðustu viku að Helgi Magnús hefði verið formlega áminntur vegna ummælanna.

„Auðvitað ljúga þeir“

Um­mæl­in lét Helgi Magnús falla vegna dóms Héraðsdóms Reykja­vík­ur þar sem niðurstaðan varð sú að Útlend­inga­stofn­un og kær­u­nefnd út­lend­inga­mála hefðu rang­lega ekki tekið stefnanda trúanlegan þegar hann sagði frá kynhneigð sinni.

Helgi skrifaði á Face­book: „Auðvitað ljúga þeir. Flest­ir koma í von um meiri pen­ing og betra líf. Hver lýg­ur sér ekki til bjarg­ar? Þar fyr­ir utan er ein­hver skort­ur á homm­um á Íslandi?“

Ósæmileg og ósamrýmanleg starfi hans

Áminn­ing­in var veitt á þeim grund­velli að hátt­semi vara­rík­is­sak­sókn­ara utan starfs hans sem vara­rík­is­sak­sókn­ari hefði verið ósæmi­leg og ósam­rýman­leg starfi hans. Hátt­sem­in hefði varpað rýrð á störf hans sem vara­rík­is­sak­sókn­ari, á embætti rík­is­sak­sókn­ara og ákæru­valdið al­mennt, sbr. 14. og 21. gr. laga nr. 70/​1996, auk þess sem tján­ing hans hefði grafið und­an virðingu og trausti til embætt­is rík­is­sak­sókn­ara og ákæru­valds­ins al­mennt.

Blaðamenn mbl.is og Morgunblaðsins hafa margsinnis gert tilraunir til að ná í Helga Magnús í kjölfar frétta um áminninguna en hann hefur hvorki svarað í síma né skriflegum fyrirspurnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert