Hjólreiðasamband Íslands mun á reglulegum fundi sínum í september fara yfir það sem gerðist í Úlfarsfelli á laugardag þegar 17 ára piltur slasaðist alvarlega í hjólreiðakeppni í fjallabruni.
Þetta segir Björgvin Tómasson, meðstjórnandi Hjólreiðasambands Íslands, spurður hvort til greina komi að breyta öryggisreglum vegna slyssins.
Pilturinn er að jafna sig eftir aðgerð á baki sem hann gekkst undir.
Björgvin segir fjallabrun vera ákveðið áhættusport en að slysin þar séu ekkert fleiri en í öðrum sambærilegum íþróttum.
Fjallabrun gengur út á að hjóla niður merkta braut í fjalli eins hratt og hægt er. Tvær ferðir eru farnar og gildir betri tíminn. Flestir keppendur klæðast mótorhjólabrynjum að framan og á bakinu ásamt olnboga- og hnéhlífum. Óheimilt er að taka þátt í mótum nema að vera með lokaðan hjálm með kjálkahlíf. Einnig skal vera með augnhlífar.
Mótið um helgina var bikarmót og var 41 keppandi skráður til leiks. Halda átti fjögur slík mót í ár, en mótinu á laugardag var aflýst vegna slyssins. Einnig er keppt á einu Íslandsmóti á hverju sumri.
Sömuleiðis er keppt erlendis og var pilturinn sem slasaðist einmitt á meðal fyrstu Íslendinganna sem kepptu í fjallabruni á alþjóðlegu móti í sumar.