Hættulegur leikur þegar þrengt er að hálsi

„Heilinn er mjög viðkvæmur fyrir súrefnisskorti og getur verið stutt …
„Heilinn er mjög viðkvæmur fyrir súrefnisskorti og getur verið stutt í heilaskemmdir.“ Ljósmynd/Colourbox

„Það sem gerist þegar þrengt er að hálsi er að það lokast fyrir blóðflæði til heilans sem leiðir til meðvitundarleysis. Heilinn er mjög viðkvæmur fyrir súrefnisskorti og getur verið stutt í heilaskemmdir.“

Þetta segir Ragnar Bjarnason, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, um leik barna sem felst í að þrengja að öndunarvegi og láta líða yfir sig.

Líkt og mbl.is greindi frá fyrir helgi urðu skólastjórnendur Grunnskóla Seltjarnarness þess áskynja að nemendur gerðu sér þetta að leik, tóku það upp og birtu afraksturinn á samfélagsmiðlum.

„Því miður kemur þetta upp sem sniðugt fyrirbæri öðru hverju. Þetta er hins vegar hættulegur leikur,“ segir Ragnar. Mikilvægt sé að tekið sé hart á málinu og að foreldrar ræði við börn sín.

Hætta á heilaskemmdum eða dauða

Ragnar segir að löggæslufólk hafi notað svona tök þegar „róa“ ætti æsta einstaklinga. Vegna margra tilfella, þar sem orðið hafa heilaskemmdir vegna þess, séu þessi tök nú bönnuð.

„Það er hins vegar misskilningur að þrengt sé að barka. Það er enn hættulegra vegna þess að barkinn og barkakýli er úr brjóski og getur brotnað, þannig að öndunarvegur opnast ekki þó hætt sé að þrýsta á.“

Segir hann að mikil hætta sé á að slíkt leiði til alvarlegra og óafturkræfra heilaskemmda, eða jafnvel dauða.

Yfirlæknir á Barnaspítala hringsins segir að málið komi upp öðru …
Yfirlæknir á Barnaspítala hringsins segir að málið komi upp öðru hvoru. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert