Heiða Björg Hilmisdóttir verður næsti formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Frá þessu er greint á vef sambandsins, en rafrænni kosningu lauk rétt í þessu.
Auk Heiðu Bjargar bauð Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sig fram til að gegna embætti formanns næstu fjögur árin.
Á kjörskrá voru 152 landsþingsfulltrúar og var kosningaþátttaka 98,03%. Heiða Björg hlaut 76 atkvæði eða 51,01%, en Rósa Guðbjartsdóttir hlaut 73 atkvæði eða 48,99%.
Heiða Björg mun taka við embætti af Aldísi Hafsteinsdóttur, núverandi formanni, á landsþingi sambandsins sem haldið verður á Akureyri dagana 28. til 30. september.
Heiða Björg hefur hingað til gegnt embætti varaformanns sambandsins.
Breytingar voru gerðar á samþykktum sambandsins á seinasta kjörtímabili sem fela í sér að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga er nú kjörinn með beinni rafrænni kosningu en ekki á landsþingi eins og tíðkast hefur.