IKEA taki hækkanir á sig

Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA.
Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA. mbl.is

Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, segir að fyrirtækið hafi tekið á sig stóran hluta aukins kostnaðar síðustu tvö árin í stað þess að setja hann allan í verðlagið.

Hann segir kostnað hafa aukist í faraldrinum út af vandræðum í aðfangakeðjunni.

„Þær hækkanir sem hafa átt sér stað síðustu tvö ár, höfum við alltaf tekið hluta af þeim á okkur. Það var ákveðið samkomulag IKEA í öllum löndum að allir myndu taka ákveðinn hluta á sig,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

IKEA frystir vöruverð á hverju ári

Stefán vildi ekki að tjá sig um ætlun Krónunnar og Hirzlunnar um að frysta vöruverð út árið. IKEA frysti vöruverð hjá sér á hverju ári.

„Við höfum alla tíð verið með fryst verð. Við gefum út bækling þar sem verðið er fryst fyrir árið,“ segir Stefán.

Hann segir að í Covid-19 faraldrinum hafi þó verið hætt að gefa bæklinginn út í pappírsformi en hann sé áfram gefinn út á vef IKEA.

Nýr bæklingur á næstu dögum

Nýtt rekstrarár byrjar í september í IKEA og Stefán segir að verið sé að setja inn verð fyrir komandi ár.

„Ég ætla ekki að lofa því að við munum halda verði ef þetta fer enn verr en þetta er orðið en annars munum við halda verðum eða reyna að lækka ef einhverjar breytingar verða til batnaðar,“ segir Stefán.

„Ég held að allir séu að reyna að gera sitt besta til að halda í við verðhækkanir því þær eru búnar að vera ískyggilegar bæði á hrávöru og á flutningi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert