Matvælastofnun varar við neyslu á bláskel úr tveimur framleiðslulotum frá fyrirtækinu Íslensk bláskel og sjávargróður þar sem að kadíum hefur mælst yfir leyfilegum hámarksgildum.
Fyrirtækið hefur í samráði við Matvælastofnun innkallað bláskelina sem dreift var í fiskbúðir og veitingastaði á tímabilinu 16. til 28. ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu MAST.
Eingöngu er um að ræða bláskel sem dreift var lifandi, merkt Lota 319 frá 16/8/22 og Lota 320 23/8/22 frá fyrirtækinu Íslensk bláskel og sjávargróður í Stykkishólmi.
Vörunni var dreift í verslanir Hafsins í Spöng og í Hlíðarsmára, Hafberg og Fiskerí á Sundlaugarvegi.
Þá eru neytendur sem keyptu skelina hvattir til að farga henni eða skila í verslun þar sem hún var keypt.