Eigendur veitingastaðanna Flame og Bambus lögðu engin gögn fram á fundi með Fagfélögunum í dag sem sýndu fram á að misskilningur hefði getað valdið því að starfsmenn þeirra hefðu fengið vangreidd laun, líkt og Davíð Fei Wang, annar eigandi staðanna, hefur haldið fram.
Í raun kom ekkert frá eigendunum á fundinum í dag, að sögn Benónýs Harðarsonar, forstöðumanns kjarasviðs Fagfélaganna. Eigendur veitingastaðanna hafa verið sakaðir um stórfelldan launaþjófnað.
„Þetta var fundur sem þau báðu um en það kom ekkert frá þeim,“ segir Benóný í samtali við mbl.is.
Málið varðar starfsmenn sem komu hingað til lands frá Filippseyjum á vegum vinnuveitanda. Talið er að þeir hafi unnið allt að sextán tíma á dag á lágmarkslaunum, sex daga í viku. Hvorki hafi verið greitt vaktaálag, yfirvinna né orlof.
Benóný segir Fagfélögin hafa lagt fram sína fyrstu útreikninga á fundinum í dag, en lögmaður eigendanna hafi óskað eftir nýjum fundi á miðvikudag þar sem þau ætli að fara nánar yfir málið. Það hafi verið samþykkt.
„Eins og þetta blasir við okkur þá hefðu launin átt að vera tvöfalt eða þrefalt hærri en þau voru. Það er útreikningur sem við stöndum við,“ segir Benóný.
„Við leggjum mikla áherslu á að fólkið fái þau laun sem við teljum að það eigi inni. Það eru mánaðamót á miðvikudaginn og við vonumst til þess að klárist á miðvikudag eða fimmtudag, eða klárist sem allra fyrst svo fólk geti haldið áfram.“
Hann segir að annað hvort verði málið leyst þannig að fólkið fái greitt sem allra fyrst, eða dómstólaleiðin verði farin. „Ég vona að þetta þurfi ekki að fara þangað því þetta fólk er búið að bíða nógu lengi eftir því sem það á inni hjá þeim.“