Líklegt að mistrið fari með rigningunni

Mistur í borginni í dag við Hádegismóa.
Mistur í borginni í dag við Hádegismóa. mbl.is/Jón Pétur

Erfitt er að segja til um hversu lengi mistrið sem hefur legið yfir höfuðborgarsvæðinu í dag verður til staðar en líklegt er að rigningin sem búið er að spá á morgun hreinsi loftið, að sögn Birgis Arnar Höskuldssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Svifryk af völdum sandfoks og rakamistur hafa legið yfir borginni í dag. Samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar hefur mengunin vegna svifryks verið yfir heilsuverndarmörkum. Heilbrigðiseftirlitið hefur ráðlagt börnum og þeim sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum að forðast útivist ef þeir finna fyrir óþægindum.

Minnkaði og jókst á ný

Að sögn Birgis Arnar veðurfræðings minnkaði mistrið aðeins seinni partinn en jókst svo aftur í kvöld. Erfiðlega hefur gengið að sjá hvaðan svifrykið kemur nákvæmlega vegna skýjahulu yfir landinu. Talið er þó að það megi rekja til sandfoks frá Suðurlandi. Rakinn í loftinu gerir það svo að verkum að skyggnið er óvenju lítið. 

Búist er við að vindáttin breytist lítið næstu klukkutímana og því erfitt að segja til um nákvæmlega hvenær mistrið leysist upp. Á morgun er þó spáð rigningu og þykir líklegt að hún komi til með að hreinsa loftið, að sögn Birgis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert