„Ósanngjarnt hvað það hallar á okkur“

Sara Martí Guðmundsdóttir var gestur Dagmála og ræddi þar ýmsar áskoranir sem blasa við sjálfstæðu leikhússenunni. Hún er nýr leikhússtjóri Tjarnarbíós og nefndi ýmislegt sem mætti betur fara. 

Þegar hún er spurð hvernig hægt sé að styðja við hina sjálfstæðu leikhússenu hér á landi nefnir hún húsnæðisvanda og að það vanti leiklistarskóla.

Hún segir skrítið að hvorki ríki né borg reki almennan leiklistarskóla fyrir börn á sama hátt og til eru myndlistarskóli og fjölmargir tónlistarskólar. Vissulega sé Borgarleikhúsið með skóla þar sem takmarkaður fjöldi barna kemst að auk þess sem hið svokallaða Leynileikhús sé frábært.

„Bókmenntirnar eru hluti af námskrá. Það má kenna leiklist en það má líka sleppa því að kenna hana. Það er undir hverjum skóla komið.“

Hún segist helst vilja fá allt húsnæðið, sem Reykjavíkurborg á, og er við hliðina á Tjarnarbíói til umráða fyrir leiklistarkennslu.

Vill heildstæða skoðun á ójafnvæginu

Hún sér fyrir sér að húsnæðið gæti einnig nýst sem æfingarými og sem geymslupláss sem leikhúsið vantar.

„Eitt af stóru vandamálum Tjarnarbíós er að við erum ekki með neitt geymslupláss. Það hefur áhrif á það sem við getum búið til í rýminu okkar.“

Það segi sig sjálft að ef Tjarnarbíó geti ekki geymt stórar leikmyndir neins staðar þá geti leikhúsið ekki sett upp leikrit á sama hús og hægt er að gera á öðrum leiksviðum.

„Það er bara ójafnt. Mig langar bara að fara í heildstæða skoðun á því,“ segir hún.

„Mér finnst ósanngjarnt hvað það hallar á okkur þegar kemur að fjármagni miðað við önnur leikhús, þegar það er meira og minna sama fólk sem vinnur í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu og vinnur hjá okkur. Það vinna þrjú hundruð manns hjá okkur á hverju ári. Þetta er allt atvinnufólk. Það eru engir áhugaleikhópar þarna inni. Þetta er allt fólk með háskólamenntun í þessari listgrein.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert